149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

kostir og gallar aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

159. mál
[14:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég leyfi mér að lýsa yfir mikilli ánægju með það verklag sem hæstv. utanríkisráðherra hefur viðhaft hvað þetta varðar. Það skiptir máli að vandað sé til verka. Ef það þýðir að við þurfum að taka okkur lengri tíma til að fara yfir kosti og galla aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu þá gerum við það. Aðalmálið er að verkefnið, skýrslugerðin, rannsóknin, er í mjög góðum höndum fólks sem þekkir þessi mál út og inn. Ég tel mikilvægt að þingið sýni að það treysti því verkferli sem utanríkisráðherra hefur sett af stað og því fólki sem hefur verið kallað til vinnu; það fólk þarf svigrúm og stuðning af hálfu þingsins til vinnunnar.

Ég efast ekki um að við munum fá skýrsluna til ítarlegrar umræðu. Ekki veitir af. Ég vil um leið segja að ég furða mig á því að vissu leyti að sjá nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins á þessari skýrslubeiðni. Ég spyr: Treysta þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki þeirri nefnd sem nú er að störfum varðandi úttektina, sem er gríðarlega mikilvæg, á EES-samstarfinu? Mér finnst skipta máli að við veitum þeirri nefnd svigrúm, tækifæri og frið til að vinna skýrsluna. Við munum síðan taka hana hér til efnislegrar og ítarlegrar umræðu þegar þar að kemur.