149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal reyna að virða ræðutímann en það er erfitt þegar maður hefur eina mínútu til að svara risastórum spurningum.

Ég held að Evrópski seðlabankinn sé mjög mikilvægur bakhjarl fyrir evrulöndin, það er bara þannig. Það væri ekki ónýtt fyrir okkur að hafa slíkan bakhjarl við gjaldmiðil sem við værum að vinna með.

Mig langar að segja frá nýlegri könnun sem gerð var um Evrópusambandið þar sem þjóðir myntsvæðisins og Evrópusambandsins voru spurðar hvernig þeim líkaði veran í Evrópusambandinu. Þar kemur í ljós að ríkin hafi aldrei verið jafn jákvæð gagnvart Evrópusambandinu, einnig ríki sem verið hafa í vandræðum, 85% Íra, Maltverjar og jafnvel Grikkir segja: Við viljum vera í Evrópusambandinu vegna þess að það er gott fyrir kjörin.