149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:50]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Það var virkilega skemmtilegt að hlusta á þau góðu sjónarmið sem hér komu fram. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þá yfirsýn sem hún gaf okkur. Ég veit og heyri að viljinn til bætingar er mikill og þannig er það í öllu kerfinu. Það er mikill metnaður til að gera breytingar.

En auðvitað hefur staðan verið svipuð um árabil, eins og komið hefur fram, eða kannski örlítið betri undanfarið, en það er ekki nóg. Kerfislæg vandamál eru eitt, en svo er ímyndarvandi annað. Það er það sem við verðum líka að skoða og má ekki gleyma í öllum breytingunum á kerfinu að það eru róttækar aðgerðir sem breyta ímyndarvandanum af því að það einkennist oftast af þekkingarleysi. Þar er mögulega rót vandans.

Starfsráðgjöf er langt frá því að vera fullnægjandi. Börn geta nefnt fjóra til sex möguleika varðandi nám sem þau geta farið í sem ekki er bóknám. Hvað eru margir möguleikar í boði? Það eru 100 leiðir að velja að loknu grunnskólanámi í iðn-, tækni- og verkgreinum. Krakkar geta nefnt fjóra til sex. Þekkingin á möguleikunum er ekki til staðar.

Það virðist vera að það þyki óæðra að fara í verknám, það heyrist líka hjá foreldrum, hjá fólki í samfélaginu. Við getum tekið sem dæmi frændsystkini sem héldu saman útskriftarveislu, annað var að útskrifast sem rafvirki og hitt var að útskrifast sem stúdent úr bóknámi. Þrisvar í útskriftarveislunni fékk sá að heyra sem útskrifaðist sem rafvirki: Jæja, hvenær ætlar þú svo klára stúdentsprófið? Svona er viðhorfið. Það er ímyndarvandi sem við þurfum að laga af því þar liggur að mestu rót vandans.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til allra góðra verka. Hún getur treyst á mikinn stuðning héðan og mér sýnist reyndar hvaðanæva að úr þinginu. Við ættum oftar að ræða menntamál í þessum sal.