149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

stofnun rannsóknarseturs um utanríkis- og öryggismál.

238. mál
[16:42]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mig langar til þess að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að halda þessu máli á lífi. Það er náttúrlega búið að taka mjög langan tíma að fá þetta fram og það er mjög skrýtið að hagsmunir Íslands í þjóðaröryggismálum séu í rauninni fyrst og fremst greindir á grundvelli erlendra fræðigreina og að það sé ekki neinn grunnur fyrir þetta hér á landi.

Það er líka skrýtið að núna eru að verða komin tíu ár frá því að þetta var samþykkt. Mér finnst furðu sæta að það taki raunverulega tíu ár að finna til nokkrar milljónir króna svo að það sé hægt að hafa kannski eins og einn fræðimann í hálfu starfi við það að greina okkar þjóðaröryggishagsmuni.

Það að vinna með frjálsum félagasamtökum er hið besta mál en ég dreg í efa skynsemi þess að úthýsa þjóðaröryggismálum Íslands til frjálsra félagasamtaka í stað þess að þetta verði gert almennilega á vegum ríkisins (Forseti hringir.) í samvinnu við fræðasamfélagið.