149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.

299. mál
[16:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi áhrifin á háskólana þá höfðu háskólarnir ekki áhyggjur af þessu máli að öðru leyti en því sem fram kom í umsögninni sem ég gerði grein fyrir áðan, þ.e. að tryggja þyrfti undanþágu vegna vísindarannsókna nemenda. Fyrir því er séð í frumvarpinu eins og það er lagt fram, en svo ber að líta til þess að fræðimenn eru að öllum jafnaði með bakhjarl og styrki sem eru oft fjárhagslegur grundvöllur rannsóknar af því tagi.

Gert er ráð fyrir því í drögum að reglugerð um gjaldtöku vísindasiðanefndar að þetta séu í raun upphæðir sem eiga ekki að valda því að aðilar hætti við vísindarannsóknir. Þetta eru einhverjir tugir þúsunda. Enn er reglugerðin ekki farin í samráðsgáttina, hún mun gera það en hún er bara til í drögum enn um sinn.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um vinnu nefndarinnar hef ég í sjálfu sér enga sérstaka skoðun á því hvernig nefndin vinnur einstök mál. Hins vegar sé ég ekki, þótt um sé að ræða breytingu á sömu löggjöf, þ.e. annars vegar málið sem er mælt fyrir og hins vegar þingmannamál þar sem hv. þingmaður er 1. flutningsmaður, að málin séu efnislega skyld. Það kann að vera það drepi umfjöllunina á dreif að fjalla um það í einu og með sömu gestakomum o.s.frv. þar sem málin eru efnislega óskyld. En ég treysti hv. velferðarnefnd til að skipuleggja þá vinnu sína vel eins og önnur störf sín og óska henni góðs gengis í því.