149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:32]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef lagt áherslu á það að við breytingar á almannatryggingakerfinu og við breytingar sem lúta að hugmyndinni um breytta starfsendurhæfingu, virkni og starfsgetumat, verði hlustað á þau varnaðarorð sem verið hafa uppi.

Það tekur oft tíma að hlusta því að þá verða allir að fá tækifæri til að segja sína skoðun. Það hefði verið ofsalega auðvelt að koma bara fram með frumvarp um starfsgetumat á fyrstu dögum þingsins í haust en það hefði ekki orðið til þess að við hefðum hlustað á þau varnaðarorð, að við værum að reyna að finna lausn sem fleiri gætu fellt sig við. Það á að vera sameiginlegt verkefni okkar, allra sem sitja við borðið í þessari vinnu að reyna að tryggja að þeir einstaklingar sem detta út af vinnumarkaði — og Alþingi tók upp sem sérstaka umræðu unga drengi í síðustu viku, umræðu sem ég er svo hjartanlega sammála. Þá verður kerfið líka að styðja við þá hugsun. (Forseti hringir.)

Það er það sem við erum að reyna að nálgast með þessari vinnu, að ná fram samfélagsbreytingum sem aðstoða þessa einstaklinga við að fara aftur út á vinnumarkaðinn.