149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég ætla í ræðu minni að fara yfir tiltekin mál því að félagar mínir í þingflokki Miðflokksins hafa farið yfir tillögur okkar nokkuð ítarlega. Ég ætla fyrst og fremst að einbeita mér annars vegar að nokkrum atriðum sem snúa að skattamálum og hins vegar að samgöngum í lokin.

Það er atriði sem ég sakna töluvert að sjá hvergi getið í þeim plöggum sem liggja fyrir og hefur að engu verið getið, a.m.k. að því ég fæ best séð í umræðunum. Það er mál sem var tekið upp í fyrra og ég gagnrýndi töluvert sem hluta af þeim áherslum Vinstri grænna sem virtust skína í gegn í fjárlagagerðinni án þess að Sjálfstæðisflokkurinn fengi neina viðspyrnu veitt.

Fyrst er að nefna þar það sem þá var hækkun fjármagnstekjuskatts um 10%, þ.e. um tvö prósentustig, úr 20% í 22%. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður í 22% í upphafi kjörtímabils í því markmiði að gera skattkerfið réttlátara óháð uppruna tekna. Samhliða verður skattstofn fjármagnstekjuskatts tekinn til endurskoðunar.“

Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég hafði skilning á því í fyrra að stjórnarflokkunum hefði ekki unnist tími til að útfæra þá breytingu, sem sagt að endurskoða skattstofninn sem ég skildi sem svo að væri forsenda þess að til þeirrar aðgerðar væri gengið, að menn færu að skattleggja raunávöxtun en ekki heildarávöxtun með verðbótum inniföldum.

Til að undirstrika það að sá skilningur virtist vera hinn sami, þá ætla ég að vitna í hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann sagði fyrst 15. desember árið 2017, í umræðum um fjárlög, með leyfi forseta:

„Mig langar að segja varðandi fjármagnstekjuskattinn að það skiptir máli að við tökum stofninn til skoðunar og vegum á móti skattprósentunni …“

Þetta skilur ekki eftir neitt svigrúm til túlkunar.

Degi síðar sagði hæstv. fjármálaráðherra í umræðu um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018, með leyfi forseta:

„Jafnframt er stefnt að endurskoðun á skattstofni fjármagnstekjuskatts, þar á meðal verðbótaþætti vaxtatekna.“

Nú er hv. þm. Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, í salnum og hefur verið duglegur að koma upp í andsvör. Mér þætti vænt um að hann leiðrétti mig ef ég fer villur vegar. En mér sýnist þetta liggja svona. Og eins mikinn skilning og ég hafði á því að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu ekki náð að útfæra þetta á einum mánuði í fyrra, þá hef ég í sjálfu sér ekki mikinn skilning á því að þeim hafi ekki tekist að útfæra þetta á heilu ári. Því að eins og segir í stjórnarsáttmála þessara sömu flokka, þá er talað um að þetta gerist samhliða. Það er miklu auðveldara að teygja og túlka hugtakið „strax“ eins og stundum hefur verið gert hér í þingsal heldur en „samhliða“. Samhliða þýðir bara samhliða, á sama tíma. Mér þykir því mjög miður að sjá þetta látið liggja á milli hluta í gegnum þessa vinnu og væri áhugavert að heyra sjónarmið fulltrúa meiri hluta stjórnarinnar hvað þetta varðar.

Annað atriði sem ég vildi koma inn á, og nokkrir félagar mínir úr Miðflokknum hafa komið inn á, er tryggingagjaldið sem nú liggur fyrir tillaga um að lækka um 0,25 prósentustig. Það hefur ekkert breyst frá því í fyrra. Allar forsendur til að færa sig til þeirrar stöðu hvað tryggingagjaldið varðar, sem var uppi fyrir hrun, eru uppi núna. Við í Miðflokknum leggjum til að gjaldið verði lækkað um 0,5 prósentustig, sem sagt tvöfalt meira en það sem ríkisstjórnarflokkarnir leggja til núna, og er þá töluvert eftir til að ná þeim stað sem ég tel eðlilegt að við stefnum að. Auðvitað horfa menn á tryggingagjaldið í dag sem einhvern almennan skattstofn sem erfitt er að sjá á eftir, en menn verða þá líka að vera tilbúnir að taka umræðuna um það og segja bara hreint út: Við ætlum okkur að skattleggja fyrirtækin meira en hugsunin var með þeim skattstofni á sínum tíma.

Þriðja atriðið sem mig langar til að nefna er kolefnisgjaldið sem nú er tillaga um og kynnt var í fyrra um að hækka um 10% til viðbótar við það sem þegar er orðið. Það var hækkað um 50% í fyrra með loforði um að það yrði hækkað um 10% í ár og 10% á næsta ári. Í millitíðinni frá því að keyrð var í gegn þessi 50% hækkun í fyrra hefur hæstv. umhverfisráðherra komið hér í svar og sagt frá því sem flestir þóttust svo sem vita að stjórnvöld hafa ekki hugmynd um hvort einhver árangur hafi náðst á grundvelli þeirrar 50% skattahækkunar. Það er auðvitað ekki boðlegt að ríkisstjórnarflokkar, eins og þeir sem nú sitja við völd, tilkynni það að tiltekinn skattur hækki um 50% og af því að mönnum þyki ekki nóg komið, þá hækki hann um 10% ári seinna og 10% aftur og á sama tíma viðurkenni þeir að þeir viti ekkert hvaða áhrif þetta hefur, hvort þetta hafi einhver áhrif á þá hluti sem ætlunin er að ná stjórn á, allt undir því flaggi að þetta sé grænn skattur. Ef skatturinn getur heitið grænn má gera hvað sem er. Þetta er auðvitað hlutur sem heldur ekki vatni og rökstuðningurinn er enginn. Það er ekki hægt annað en að gagnrýna þetta hérna.

Þá ætla ég að láta þessu lokið í bili um þau atriði er snúa að sköttum og koma örsnöggt inn á samgönguhluta fjárlaganna.

Í fjárlagafrumvarpinu er tillaga um niðurskurð upp á rúman hálfan milljarð. Sú tillaga að lækkun kemur fram þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar um að samgönguáætlun sé fullfjármögnuð. Ég gagnrýndi það mikið fyrir rétt um ári síðan að ekki færi saman hljóð og mynd í samgönguáætlun þeirri sem nú er í gildi og er að renna sitt skeið og í fjárlögum og fjármögnun hennar. Menn voru mjög uppteknir af því að samgönguáætlun yrði til samræmis við fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, og það tókst ágætlega þó að gagnrýna megi heildarupphæðina sem varið er til samgöngumála. En gefum okkur að þetta hafi bara tekist ágætlega, þá var horft til þess að til nýframkvæmda færu næstu þrjú árin 13,5 milljarðar á ári og síðan á ári fjögur og fimm af samgönguáætlun, um 7,8 milljarðar, sem sagt seinustu tvö árin.

Það dettur ekki nokkrum manni í hug að 0,5 milljarða lækkun núna verði send inn aftur að ári þannig að til nýframkvæmda verði varið 14 milljörðum, ekki 13,5. Það sem gerist er að 0,5 milljarðar falla út og sáralitlar líkur á að komi nokkurn tímann inn aftur. Þetta er hreinlega niðurskurður. Þetta gerir samgönguáætlunina, sem samgönguráðherra lagði fram, vanfjármagnaða og við eigum bara að tala um þetta eins og það er.

Hv. formaður fjárlaganefndar, Willum Þór Þórsson, sagði áðan, ef ég tók rétt eftir og held að ég hafi gert það, að hafa þyrfti mannskap og tæki til að klára öll þessi verkefni. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef ég hef rangt eftir honum. En það er þannig að afkastageta þeirra verktaka sem sinna verkefnunum er til staðar í dag. Þetta er auðvitað bara fyrirsláttur að ætla að réttlæta það að dregið sé saman í nýframkvæmdum með því að verktakar landsins ráði ekki við verkin. Það er ekkert svoleiðis. Verið er að skera niður fjárveitingar til nýframkvæmda í vegamálum. Punktur. Við eigum bara kalla hlutina þeim nöfnum sem við hæfi eru.

Því hefur jafnframt verið haldið fram að það sé ekkert vandamál að fjárveitingar til vegamála eða samgöngumála fari niður um 0,5 milljarða, það sé svo mikið svigrúm til að hliðra verkefnum til, það séu verkefni sem komast ekki af stað, verkefni sem séu mismunandi staðsett í hönnunarferli og umhverfishanteringunni allri. Þetta heldur ekki vatni heldur. Það eru næg verkefni sem er annaðhvort hægt að bæta í, sem nú þegar eru í gangi, eða þá að stækka sem eru á lokaferli útboðs. Það að segja að hliðrun orsaki það að ekki sé raunverulega verið að taka 0,5 milljarða úr vegamálunum er útúrsnúningur sem er auðvitað ekki boðlegur. Og þegar þessi tillaga kemur fram eiga menn að kalla hlutina þeim nöfnum sem rétt eru. Hér er verið að skera niður um 0,5 milljarða til samgöngumála og allar þær útskýringar til að lina þá aðgerð verða að skoðast í því samhengi að þetta er örugglega gert með vondu bragði í munni.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín lengri í dag. Eins og ég sagði áðan eru félagar mínir í Miðflokknum búnir að fara prýðilega yfir breytingartillögur okkar við fjárlögin. Ég vil ítreka aftur: Mér þykir miður að sjá þessi mál liggja á milli hluta sem snúa að þeim skattkerfisbreytingum sem lofað var í fyrra. Það kemur sérstaklega á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn, leyfi ég mér að segja, láti það yfir sig ganga að spyrna ekki við þeirri stefnu, sem ég gef mér að sé komin frá Vinstri grænum. Ég skildi það sem svo eftir umræðurnar í fyrra að ein ástæðan fyrir því að fjármagnstekjuskatturinn væri ekki færður til að skattleggja rauntekjur væri vegna tímaskorts, en sú afsökun er fokin út í veður og vind núna. Nú er þetta augljóslega annaðhvort ákvörðun að gera þetta ekki eða algjört áhugaleysi.