149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil að lýsa yfir ánægju minni með þann hluta svars hv. formanns fjárlaganefndar að samgönguáætlun eins og hún liggur fyrir núna verði fullfjármögnuð. Það þýðir þá að 500 milljónum, þeim hálfa milljarði sem fjárveitingar næsta árs verða lækkaðar um, verði bætt við þegar útgefna áætlun á síðari fjórum árum … (Gripið fram í.)— Nei, það þýðir nákvæmlega það. Ef áætlaðir eru 13,5 milljarðar fyrstu þrjú árin og 7,8 síðustu tvö árin þá verður sú áætlun ekki fullfjármögnuð nema sá hálfi milljarður sem nú er sleginn af verði settur inn á síðustu fjórum árum áætlunarinnar. Það er algerlega augljóst. Það er ekkert hægt að skilja það öðruvísi. Ef meiningin var önnur bakka ég aftur í það að segja: Þá er samgönguáætlun ekki fullfjármögnuð, sem þeim hálfa milljarði nemur. En það er auðvitað ekki stóra talan í heildarmyndinni.

Ef það er ekki ætlunin að setja þennan hálfa milljarð aftur inn síðar þá verður hann ekki tekinn neins staðar annars staðar en af þeim verkefnum sem voru áætluð í framlagðri samgönguáætlun, sem var talin full fjármögnuð og verður þá ekki leyst nema skera niður einhvers staðar innan fimm ára rammans sem því nemur.