149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

staða, þróun og framtíð íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

[11:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að hreyfa við þessu mjög mikilvæga málefni. Það er hins vegar svo að í þeim naumt skammtaða tíma sem við höfum hér er erfitt að taka djúpa umræðu um öll þau stóru álitamál. Mig langar að rekja nokkur mikilvæg atriði. Það kerfi sem við eigum í dag má rekja aftur til ársins 1969 þegar í tengslum við kjarasamninga á almennum markaði var samið um að setja upp atvinnutengda lífeyrissjóði með skylduaðild og fullri sjóðsöfnun frá byrjun árs 1970. Áður en samningar um það náðust höfðu fjárhagsaðstæður almenns launafólks á eftirlaunaaldri ekki verið góðar þar sem ellilífeyrir almannatrygginga hrökk skammt.

Árið 1974 voru sett lög sem skylduðu alla launamenn og atvinnurekendur til að greiða a.m.k. 10% iðgjald til lögbundinna eða viðurkenndra lífeyrissjóða. Með lögum frá árinu 1980 náði skyldan einnig yfir sjálfstætt starfandi einstaklinga. Árið 1986 var loks samið um að greidd væru iðgjöld af öllum launum, ekki aðeins dagvinnulaunum. Undirbúningur lagasetningar um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða stóð með hléum frá árinu 1976 en árið 1997 voru núgildandi lög samþykkt.

Mjög víðtæk sátt hagsmunaaðila náðist um rammalöggjöfina. Þá var viðbótarlífeyrissparnaði komið á fót sem þriðju stoð lífeyriskerfisins auk þess sem samkomulag náðist milli ríkis og opinberra starfsmanna um að taka upp nýtt réttindaávinnslukerfi sem byggist á fullri sjóðsöfnun og sem í meginatriðum er svipað og réttindakerfi á almennum vinnumarkaði.

Í grein Más Guðmundssonar frá árinu 2004 kemur fram að erfitt kunni að vera skipta á milli lífeyriskerfa ef það kerfi sem fyrir er er augljóslega ekki til vandræða. Fram kemur að þegar ákveðið var í kjarasamningum í lok sjöunda áratugarins að setja á stofn lífeyrissjóði sem byggðust að öllu leyti á sjóðsöfnun var lífeyrir almannatrygginga orðið mjög lágur þar sem verðbólga, efnahagslegur samdráttur, hafði grafið undan honum.

Því hafi vandamál við breytingu úr gegnumstreymiskerfi yfir í sjóðsöfnun orðið minni en ella og vilji til breytinga meiri. Þá er bent á að sjóðsöfnun í lífeyriskerfum hafi jákvæðar afleiðingar, sérstaklega í litlum opnum hagkerfum, þ.e. ellilífeyriskerfi, eiga að vera bæði örvandi fyrir hagvöxt og vera félagslegt öryggisnet. Það hefur oft verið bent á hollenska kerfið sem góða fyrirmynd að lífeyriskerfi en á Íslandi er að finna sambærilegt kerfi og það hollenska, sveigjanlegt kerfi sem stendur undir sér og á möguleika á að stilla sig af ef syrtir í álinn.

Þegar spurt er um afstöðu til gegnumstreymiskerfis er mikilvægt að hafa nokkur atriði sérstaklega í huga. Slíkt kerfi gerir ráð fyrir að eftirlaunaþegar þiggi lífeyri beint af tekjum þeirra sem eru á vinnumarkaði og þannig greiði ein kynslóð fyrir þá næstu. Það má segja að það sé kostur við slíkt kerfi að hægt er að greiða lífeyrisþegum góðan lífeyri við upptöku kerfisins en reikningurinn er sendur á vinnandi stéttir sem hafa ef til vill ekki tryggingu fyrir því að þegar þær fara á lífeyrisaldur njóti þær jafn góðra réttinda. Gallinn er sem sagt sá að lífeyrisbyrði getur lagst mjög misþungt á kynslóðir.