149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

staða, þróun og framtíð íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

[11:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Eins og ég sagði í fyrri ræðu erum við að tala um 15,5% af allri verðmætasköpun starfsfólks á Íslandi. Þetta eru vel rúmlega 4.000 milljarðar kr. sem við erum að tala um. Hver velur þetta fólk? Sjóðfélagar hafa gríðarlega hagsmuna að gæta. Ef við nálgumst þetta út frá almennum lýðræðislegum sanngirnisreglum er það þannig að ef þú hefur mikilla hagsmuna að gæta áttu rétt á aðkomu að ákvarðanatöku. Flokkur hæstv. fjármálaráðherra, eða Pétur Blöndal, hefur ítrekað lagt fram frumvarp um að sjóðfélagar sjálfir eigi rétt á að kjósa í stjórnir sjóðanna. Hans nálgun á það var á grundvelli uppsafnaðra réttinda, hve mikið þeir hefðu lagt inn, atkvæðavægið væri í þeim krafti. Það má jafnvel segja að þetta sé réttmætt á þeirri forsendu.

Nú eru aðrir sem koma nýir inn og vilja kannski ekki að þeir sem eldri eru eða sem hafa verið lengur geti tekið alla stjórnina. Þá væri hægt að láta helminginn eða jafnvel einn þar inn kosinn af þeim aðilum og þá í krafti uppsafnaðra réttinda sinna og svo einn sem væri kosinn í krafti einn maður, eitt atkvæði. Þarna næðu bæði þeir sem eru öryrkjar og þeir sem eru nýir að hafa fulltrúa í stjórninni og svo líka á grundvelli þess sem Pétur H. Blöndal lagði fram. Guðlaugur Þór Þórðarson, Þorsteinn Sæmundsson o.fl. hafa verið á því frumvarpi, ég hef verið á því, með Pétri H. Blöndal.

Þetta er eitthvað sem kemur fram í skýrslu sem ríkissáttasemjari gerði að frumkvæði Landssamtaka lífeyrissjóða árið 2012. Þar segir að óeðlilegt virðist að eigendur lífeyrissjóðanna, sjóðfélagarnir, eigi almennt ekki fulltrúa í stjórnum sjóðanna og hafi enga aðkomu að því hverjir sitja þar. Já, það er óeðlilegt. Þetta eru það miklir hagsmunir. Ef þú leggur fé í fyrirtæki og ert hluthafi í því þá áttu rétt. Samkvæmt grundvallarreglum OECD og almennt í viðskiptalífinu í flestum ríkjum heims áttu rétt á að kjósa stjórn. Því eiga sjóðfélagar að hafa rétt á. Þetta er frumvarp sem hefur ítrekað verið lagt fram, m.a. af Sjálfstæðisflokknum.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson hvort hann sé sammála þeirri meginreglu.

(Forseti (ÞórE): Enn vill forseti minna hv. þingmenn góðfúslega á að nota rétt ávarpsorð.)