149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

staða, þróun og framtíð íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

[11:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið fín umræða. Hún dregur það fram hversu mörg álitamálin eru í tengslum við lífeyriskerfið okkar. Það eru samt nokkrir hlutir sem við getum verið sammála um og standa upp úr. Í fyrsta lagi erum við með mjög sterkt lífeyriskerfi. Einn af helstu styrkleikum okkar í efnahagslegu tilliti er hversu langt fram í tímann við höfum hugsað í því efni og við stöndum mörgum öðrum þjóðum miklu framar í þessu tilliti.

Hér hefur verið spurt töluvert um aðkomu sjóðfélaga að stjórnum lífeyrissjóða. Ég hef verið frekar hlynntur því. Ég hef hins vegar viljað að við næðum samkomulagi, eins og við gerðum á sínum tíma, um það stjórnfyrirkomulag sem er, en er hlynntur því að menn eigi kost á því að koma með beinum hætti að þátttöku við stjórn lífeyrissjóða.

Aðeins var spurt hvort Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefði sett sér stefnu. Hann hefur hluthafastefnu sem er opinber og þar er farið yfir mörg af þessum atriðum. Spurt hefur verið hvort ég myndi styðja fækkun lífeyrissjóða. Já, já, ég held að gild rök geti verið fyrir því að sameina sjóði og það hefur verið að gerast á undanförnum árum.

Ég ætla að nota síðustu hálfu mínútuna sem ég hef hér til að benda á tvo þætti sem ég tel að skipti mjög miklu máli. Við þurfum að greina miklu betur langt inn í framtíðina hvernig greiðsluflæði sjóðanna verður, bæði til erlendra fjárfestinga og síðan hvernig greiðsluflæðið verður aftur heim þegar fleiri fara á réttindaaldur eða lífeyristökualdur. Þetta getur haft áhrif á efnahagsstærðir sem skipta miklu. Þetta þurfum við að skoða sérstaklega.

Á síðasta ári lét ég gera skýrslu (Forseti hringir.) um stöðu lífeyrissjóðanna á mörkuðum, t.d. með tilliti til þess hvort þeir væru orðnir of fyrirferðarmiklir. Hún er opinber og ég hvet menn til að kynna sér hana. Ég held að þar sé gríðarlega mikil áskorun hjá okkur. Lífeyrissjóðir eiga ekki að vera leiðandi fjárfestar í öllum fyrirtækjum á Íslandi, (Forseti hringir.) þeir eiga að vera meðfjárfestar, en við þurfum að koma almenningi meira í þá stöðu að nýju (Forseti hringir.) að vera hluthafar.