149. löggjafarþing — 37. fundur,  23. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:06]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsögu fyrir hönd 2. minni hluta. Ég ætla fyrst að segja að ég tel að meiri hlutinn hafi unnið mjög góða vinnu, fjölmargar vandaðar umsagnir liggja fyrir og gestir hafa komið á fundi nefndarinnar. Hæstv. ráðherra fór vítt og breitt um landið og kynnti fyrirhugaðar tillögur og frumvarp. Ég gat ekki heyrt betur á máli hv. þingmanns en að hann taki undir það að innheimta veiðigjalda með þeim hætti sem lagt er til af meiri hlutanum sé til bóta og að færa innheimtuna til ríkisskattstjóra. Hann segir svo á sama tíma að það sé ógagnsætt og háð óvissu. Afkoma mun sveiflast og er háð aflabrögðum og verðsveiflum, það er rétt. En er þá ekki einmitt mikilvægt að afkomutengja innheimtu veiðigjalda, eins og hér er lagt til, með skynsamlegum breytingum, ekki síst fyrir atvinnugreinina?