149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er einkennandi fyrir þá umræðu sem átt hefur sér stað um þetta frumvarp að flestir sem tekið hafa til máls vilja ganga lengra. Þeim kemur bara ekki saman um í hvaða átt á að ganga.

Að meðaltali held ég að þeir sem tóku til máls um málið séu þó þokkalega sáttir við megininntakið, þ.e. að þetta sé til einföldunar á því ógegnsæja kerfi sem fyrir er til álagningar veiðigjalda í dag. Þetta er skilvirkara, álagningin er færð nær í tíma og hún er meira í takt við afkomu greinarinnar, sem stærstu óskir hafa verið um.

Í máli flestra þingmanna í mikilli umræðu í síðustu viku kom fram að það er til stórra bóta frá því sem verið hefur.

Þannig að ég horfi til þess að það mál sem við erum að takast á um og höfum verið að takast á um undanfarna daga sé til stórra bóta á starfsumhverfi sjávarútvegsins á Íslandi og muni skila okkur fram til betri tíma.