149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

símenntun og fullorðinsfræðsla.

352. mál
[16:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að sitja hér fyrir svörum með okkur. Mig langar að beina til hennar spurningu varðandi starfsemi símenntunarmiðstöðva eða fullorðinsfræðslunnar eins og hún er oft nefnd en hún spannar auðvitað miklu meira. Símenntunarmiðstöðvar eru líklega 11 hringinn í kringum landið og misjafnlega er búið að þeim. Forsendur fjárúthlutunar til starfseminnar virðast mjög óljósar. Það er munur á milli þeirra að innri gerð eftir því hvar þær eru í sveit settar, hvort þjónustusvæðið er víðfeðmt — ég nefni Vesturland, Vestfirði og Austurland — eða landfræðilega mjög afmarkað eins og í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum, og það hafa orðið breytingar á samsetningu starfseminnar og breytingar á samsetningu skjólstæðinga á umliðnum árum.

Afþreyingarnámskeið, sem voru svo algeng hér áður fyrr, eru nú horfin en við hafa tekið viðamikil fræðsluverkefni sem gefa ýmisleg réttindi. Ég nefni t.d. að símenntunarmiðstöðvarnar bera hitann og þungann af íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Símenntunarmiðstöðvunum er gert mishátt undir höfði, t.d. hvað varðar möguleika til að bjóða fötluðum fræðslu og námskeið. Því það er mikilvægt. Þar virðist hendingin ein ráða. Ein símenntunarmiðstöð fær t.d. þrisvar sinnum hærri upphæð til þessa þáttar en önnur og engin hlutlæg skýring eða rök finnast á málinu.

Herra forseti. Tengslin við atvinnulífið eru mikilvægur þáttur í starfsemi símenntunarmiðstöðva, námskeiðahald og fræðsla, símenntun til starfsmanna fyrirtækja og stofnana. Ég nefni almennt starfsfólk heilbrigðisstofnana og ég nefni, af því að ég þekki dálítið til, Stóriðjuskólann á Grundartanga. Það eru ýmsir þættir sem vekja spurningar. Það eru byggðasjónarmiðin líka. Við erum víða á landsbyggðinni að glíma við lágt menntunarstig og þar kemur fullorðinsfræðslan við sögu og getur skipt sköpum til að byggja brýr yfir í almenna skólakerfið. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða áform eru uppi um stefnumótun í fullorðinsfræðslu og starfsemi símenntunarmiðstöðva og ekki síst á landsbyggðinni? Hvað líður samræmdu reiknilíkani fyrir starfsemina og áformum um að styrkja faglega og rekstrarlega umgjörð hennar?