149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

símenntun og fullorðinsfræðsla.

352. mál
[16:20]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir að fjalla um símenntun og fullorðinsfræðslu. Þörfin á símenntun og endurmenntun er sífellt að aukast vegna þeirra tæknibreytinga sem eru að eiga sér stað í okkar samfélagi með sjálfvirknivæðingu og öðru slíku. Og svo er það líka þannig að málefni líðandi stundar eru að breytast talsvert mikið, m.a. vegna þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað varðandi loftslagsmálin. Samfélög eru að verða sífellt meðvitaðri um það sem er að gerast og þeim sem taka á þessum málum á skilvirkan og uppbyggilegan hátt mun vegna betur er varðar samkeppnishæfni þjóða.

Hv. þingmaður spurði hvaða áform væru uppi um stefnumótun í fullorðinsfræðslu og starfsemi símenntunarstöðva, ekki síst á landsbyggðinni. Þá vil ég nefna að á vegum ráðuneytisins er nú verið að undirbúa frumvarp til laga um nám fullorðinna og undir þá vinnu fellur endurskoðun á lögum um framhaldsfræðslu. Þau lög taka sérstaklega til fullorðinna sem ekki hafa lokið formlegu námi á framhaldsskólastigi og afmarkast við starfsemi sem ekki er skipulögð á grundvelli laga um framhaldsskóla eða háskóla.

Hugtakið fullorðinsfræðsla nær yfir mun stærri hóp. Þessi víðari nálgun er ein meginástæða þess að ákveðið var að hefja vinnu við ný heildarlög um nám fullorðinna og um leið einfalda regluverkið og breyta hugtakarammanum þannig að lögin nái yfir stærra mengi en ella. Þannig getum við enn betur styrkt stoðirnar undir það að allir búi yfir nægilegri grunnfærni til að lifa og starfa og mæta áskorunum dagsins í dag. Ég legg mikla áherslu á það að heyra rödd hagsmunaaðila í þessum málaflokki. Þess vegna skipaði ég 20 manna samráðshóp um nám fullorðinna í byrjun þessa árs og gildir skipunin til fjögurra ára.

Til að fá sem mesta breidd í samráðshópinn var óskað eftir tilnefningum hagsmunaaðila um land allt og voru 40 fulltrúar tilnefndir aðal- og varamenn. Hlutverk samráðshópsins er að vera faglegur vettvangur fyrir nám fullorðinna þar sem hægt er að taka yfir einstök mál, skiptast á skoðunum, veita upplýsingar, skýra mismunandi sjónarmið og finna ýmsum úrlausnarefnum farveg. Fyrsta verkefni hópsins var að rýna lögin um framhaldsfræðslu og koma með tillögur sem nýtast í vinnu við endurskoðun laga um nám fullorðinna.

Virðulegur forseti. Hvað líður samræmdu reiknilíkani fyrir starfsemina og áformum um að styrkja faglega og rekstrarlega umgjörð hennar er um það að segja að símenntunarstöðvar um land allt afla sér fjár til fjölbreytilegrar starfsemi eftir ýmsum leiðum. Framlög til þeirra af fjárlagaliðum ráðuneytisins eru fyrst og fremst í gegnum fræðslusjóð sem úthlutar fé samkvæmt úthlutunarreglum og skilmálum sem stjórn sjóðsins gerir tillögu um og ráðherra staðfestir. Segja má að um ákveðið reiknilíkan sé að ræða. Hins vegar eru símenntunarmiðstöðvar með samning við ráðuneytið um grunnstarfsemi samkvæmt ákvæðum laga um framhaldsfræðslu og eftir atvikum um þjónustu við háskólanema og renna þeir út í árslok 2018. Ákveðið hefur verið að gera viðauka við þá samninga sem framlengir gildistíma þeirra út næsta ár.

Virðulegur forseti. Ég stefni á að færa bein framlög ráðuneytisins til símenntunarstöðva, samkvæmt samningum, yfir í styrkjafyrirkomulag, samanber 42. gr. laga um opinber fjármál og reglugerðar nr. 642/2018 um styrkveitingar ráðherra. Þar er kveðið á um meginreglur við veitingu styrkja og skyldu til að auglýsa lausa styrki til einkaaðila sem sjá um grunnþjónustu og samfélagsleg verkefni eins og símenntunarmiðstöðvar gera að hluta til.

Virðulegur forseti. Samhliða vinnu við breytingu á fyrirkomulagi á styrkjafyrirkomulagi til símenntunarstöðva, samkvæmt lögum um opinber fjármál, vinnur ráðuneytið að þróun deililíkans eða reiknilíkans þar sem m.a. verði settar reglur um hvernig framlög eða styrkir verða auglýst, hvaða skilyrði verða sett og hvaða kröfur verða gerðar til umsækjenda.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að setja þessi mál á dagskrá þingsins. Þau skipta máli er varðar framvindu málaflokksins og við viljum efla grunnfærni sem flestra á íslenskum vinnumarkaði svo að hægt sé að efla hann.