149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það sem við gætum kannski bætt í þessa umræðu, um leið og ég þakka svar hv. þm. Birgis Þórarinssonar, er að það sem mætti bæta í verklagi okkar um ráðstöfun varasjóða og um vinnslu við fjáraukalög er, og ég held að það geti verið reyndar örðugt að ná utan um, raunveruleg staða á fjárheimildum, hve mikið er flutt yfir áramót og tekið af fjárveitingum næsta árs. Ég held að það sé mikilvægt að við tökum það í umræðunni um fjáraukalög að um það eru mýmörg dæmi. Það er okkur reyndar svolítið hulið í vinnunni við fjáraukalög en í fjárreiðulögunum var heimilt að færa yfir áramót, þ.e. ganga á fjárveitingar næsta árs, og við höfum ekki yfirlit yfir það. Menn mega ekki gleyma þeim pósti þegar þeir gagnrýna að það sé hlaupið til og brugðist við með fjáraukalögum og auknum fjárheimildum. Svo er ekki. Við höfum ágæta vitneskju um að beiðnir um fjárauka eru miklu meiri en birtast í fjáraukalagafrumvarpi. Ég held að við séum sammála um það, allir sem sitja í hv. fjárlaganefnd, að smám saman herðum við skilyrðin. Það sjáum við líka vera að gerast. Við sjáum það mjög glögglega á þessu fjáraukalagafrumvarpi sem er eitthvert það minnsta að útgjaldavexti sem við höfum séð í langan tíma.

Þá verður líka að geta þess að við höfum verið í ansi miklum pólitískum óstöðugleika og höfum hoppað á milli ríkisstjórna. Því miður hefur ekki alltaf verið góður viðskilnaður. Án þess að í því felist nokkur broddur af gagnrýni eru það bara staðreyndir og verkefni sem við tökumst á við. Það má ekki gleymast í umræðu um fjárauka að það eru verulega mörg dæmi um það sem er flutt á milli ára þar sem gengið er á fjárveitingu næsta árs sem er raunverulega eðli (Forseti hringir.) fjárstýringar samkvæmt þessum nýju lögum.