149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:50]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mér þykir þetta einmitt dálítið áhugavert af því að markmið laganna um opinber fjármál var einmitt að færa aukna festu í fjármálastýringu ríkisins og ríkissjóðs, að fyrirsjáanleiki yrði meiri, vandvirkni og fagmennska í kringum fjármálastýringuna. Hér er verið að tala um tæpa 60 milljarða. Mér reiknast til, miðað við þær tölur sem ég hef séð, að sennilega þyrfti fjárhæð veggjalda að lágmarki að nema 5–7 milljörðum á ári til að borga upp það umfang sem hér er verið að tala um, sennilega eitthvað meira þegar bætt er við rekstrarkostnaði félagsins, myndavélabúnaði og öðru því sem þyrfti til að reka innheimtukerfin sjálf. En látum það liggja á milli hluta. Þetta er einhvers staðar á bilinu 5–8% af umfangi ríkisins og munar um minna.

Mér þætti áhugavert að heyra hvað hv. þingmanni, sem nefndarmanni í fjárlaganefnd, finnst um vandvirknina, fyrirsjáanleikann og festuna í þessu. Hér er ætlast til þess að við klárum þetta í þinginu — væntanlega verður þrýst á um atkvæðagreiðslu um samgönguáætlun í þessari viku — með algerlega óútfærð markmið um það hvernig sinna eigi bráðnauðsynlegum framkvæmdum hér á suðvesturhorninu, sem allir eru sammála um að séu hvað brýnustu verkefnin í þessu samhengi þegar horft er til umferðarþunga og umferðaröryggis, ferðatíma og svo mætti áfram telja. En við fáum í raun bara óútfylltan tékka á að það sé enn í skoðun hvernig þetta verði fjármagnað og hvort það standist lög um opinber fjármál.