149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á þeim kerfislæga vanda sem virðist vera til staðar varðandi aðstöðumun þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins þegar kemur að ýmsum styrkjum og úthlutunum í ólíkum greinum. Eins og kom fram í svörum við fyrirspurnum mínum á síðasta ári til ráðuneytanna hallar nokkuð á hlut landsbyggðarinnar.

Þetta kemur m.a. fram í úthlutunum Tækniþróunarsjóðs og eins og kom fram í ritstjórnargrein Starafugls fyrr í vikunni kemur þetta meira að segja fram í úthlutun listamannalauna, eða með leyfi forseta:

„Þetta þýðir, í sem stystu máli, að annaðhvort eru umsóknir sem berast af landsbyggðinni almennt ekki nógu góðar eða að ekki er mikið tekið tillit til búsetu og kyns þegar valið er. Að umsóknir af landsbyggðinni séu hlutfallslega færri en umsóknir í höfuðborginni, miðað við íbúafjölda, þýðir líka að annaðhvort eru aðstæður til listsköpunar á landsbyggðinni ekki nógu góðar, listamenn á landsbyggðinni telja af einhverjum orsökum ekki að þeir eigi neitt erindi við sjóðinn eða að þeir hrekjast allir suður áður en þeir sækja um. Sé lögheimili á höfuðborgarsvæðinu forsenda fyrir löngun til listsköpunar fellur líka kenningin um að það sé fyrst og fremst hin óhamda náttúra sem blæs Íslendingum listrænu hamsleysi í brjóst. Kannski er það þá bara svifrykið, eftir allt saman. Eða Listaháskólinn.

Sömuleiðis skrifa þá konur annaðhvort betri myndlistarumsóknir og karlar betri ritlaunaumsóknir eða að meira tillit er tekið til fyrirfram gefinna hugmynda um hver kunni hvað. Annaðhvort eru fordómar okkar um kyn og búsetu einfaldlega réttir — eða þeir eru rangir.“

Herra forseti. Hver sem ástæðan er, hvort umsóknir sem berast utan höfuðborgarsvæðisins eru almennt ekki nógu góðar, hvort ekki berast umsóknir þaðan eða hvort það séu hreinlega kerfislægir fordómar gegn umsóknum utan höfuðborgarsvæðisins, þá er ljóst að við verðum að gera eitthvað til að breyta þessu.