149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:36]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Sú samgönguáætlun sem við greiðum senn atkvæði um er talsvert metnaðarfull og lýsir yfir fyrirheitum um átak í samgöngubótum og öryggismálum vegfarenda. Engu að síður skortir á afdráttarlaus merki um viðsnúning og uppbyggingu í mörgum aðkallandi og jafnvel svæðisbundnum verkefnum.

Norðvesturkjördæmi er eitt gott dæmi um það. Hvergi á landinu er jafn hátt hlutfall illa farinna malarvega og einbreiðra brúa sem skapa mikla hættu fyrir vegfarendur, ekki síst ferðamenn sem ekkert eru staðkunnugir. Ég nefni Vatnsnes, Skógarströnd og Veiðileysuháls á Ströndum þar sem byggð er á fallanda fæti og berst í bökkum. Yfirborðskennd og tilfinningaþrungin umræða um að farin verði braut veggjalda, sem er kúvending í samgöngumálum, þarfnast meiri yfirvegunar en hér hefur verið boðið upp á. Hún þarfnast meiri tíma og meiri umræðu.