149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:27]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér eru greidd atkvæði um að bæta við í kaflann Almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi; fjölbreyttir ferðamátar, svohljóðandi setningu:

„Unnið verði að samningi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu þar sem lögð verði áhersla á nauðsynlegar úrbætur í núverandi almenningssamgöngum, uppbyggingu og rekstur hágæða almenningssamgangna, úrbætur á stofnvegum og gerð hjóla- og göngustíga.“

Ég styð hugmyndir um borgarlínu heils hugar og hef talað fyrir því frá því að ég kom inn á þing. Ég fagna því mjög hve mikill samhljómur virðist vera í þingsal um mikilvægi þess að við ráðumst í stórtækar umbætur á samgöngum á höfuðborgarsvæðinu, bæði á stofnvegakerfinu og í almenningssamgöngum. En ekki verður farið út í þessa framkvæmd öðruvísi en að við vinnum náið með sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, sem hafa skipulagsvaldið og hafa skipulagt þessa framkvæmd.

Að sjálfsögðu mun ríkið þurfa að koma inn með fjármögnun í samstarfi við sveitarfélögin og ég hygg að við sjáum breytingu í fjármálaáætlun og næstu samgönguáætlun þar sem peningum verður úthlutað nákvæmlega í þetta verkefni. En fyrst verðum við að ná þessu samkomulagi og sú vinna er í gangi hjá hæstv. ráðherra, eins og margoft hefur verið farið yfir í þessari umræðu.