149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

nýjar úthlutunarreglur LÍN.

[10:49]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og ég get fullvissað hann um það að kjör og aðstæður stúdenta verða bætt á kjörtímabilinu. Sú vegferð hófst reyndar í mars á síðasta ári þegar framfærslugrunnur námsmanna innan lands hækkaði úr 92% í 96%. Einnig vil ég nefna, sem er mikið fagnaðarefni, að þá öðluðust einstaklingar sem hafa alþjóðlega vernd hér á landi eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða einnig rétt á námslánum og það var kærkomið framfaraskref að mínu mati.

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að ganga enn lengra og við munum beita okkur sérstaklega fyrir því að frítekjumarkið verði hækkað. Núna á sér stað umtalsverð vinna í mennta- og menningarmálaráðuneytinu við að rýna stöðu námsmanna. Einnig hef ég boðað frumvarp um heildarendurskoðun sem kemur á haustdögum eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel. En já, við erum að fara að bæta kjör námsmanna og það er afar brýnt vegna þess að við viljum að kjör þeirra séu samkeppnishæf. Það er tvennt sem við höfum að leiðarljósi þegar við endurskoðum námslánakerfið, það er annars vegar að fólk geti farið í nám óháð búsetu og einnig það að eftir nám séu kjörin sambærileg, staða þeirra, og á hinum Norðurlöndunum.