149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

helgidagafriður og 40 stunda vinnuvika.

549. mál
[13:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Bara til að vekja athygli á því að þetta varðar ekki bara helgidagana sem slíka því að óheimilt er að trufla guðsþjónustu, kirkjuathöfn eða annað helgihald með hávaða eða öðru sem er andstætt helgi viðkomandi athafnar.

Það er rosalega víðtækt hvað þetta þýðir. Það þýðir í rauninni að viðkomandi trúar- eða lífsskoðunarfélag geti skilgreint það hvað telst vera helgi viðkomandi athafnar. Það gætu verið einhver trúarbrögð sem segðu: Það má ekki borða kjöt á þessum degi — í alvöru. Það er skilgreining á helgi viðkomandi athafnar. Þess vegna er talað um að einhver geti misst vínveitingaleyfi ef lögin eru brotin, handhafi opinbers starfsleyfis, það er hluti af viðurlögum við því.

Í íþróttafélögum t.d. fer ákveðin starfsemi fram og það er oft rígur þar á milli. Stjórnmálasamtök, oft er rígur þar á milli. Fólk sér okkur ekki fara og mótmæla fyrir utan höfuðstöðvar annarra stjórnmálaflokka, þó að við værum mjög andsnúin skoðunum þeirra. Af hverju ætti það að vera eitthvað öðruvísi með trúar- og lífsskoðunarfélög? Þetta er ákveðin gagnkvæm virðing við það að aðrir geti haft öndverðar skoðanir. Það þarf ekkert að verja það neitt sérstaklega í lögum.

Eða kannski nákvæmar sagt: Þá þyrfti að útskýra af hverju sérstaka lagavernd þyrfti til að þau gætu stundað þjónustu sína eða athafnir, væntanlega innan dyra í sínu eigin húsnæði, sem og ýmislegt annað, t.d. önnur lög, væri til staðar til að koma í veg fyrir truflun, myndi maður ætla, sem gilti þá fyrir alla og ætti að vera alveg næg vernd fyrir þeirri friðhelgi sem viðkomandi trúar- eða wlífsskoðunarfélag myndi vilja fyrir slíka athöfn.