149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

sjúkratryggingar.

513. mál
[15:04]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni fyrir ræðuna og fyrir að leggja fram þetta flotta og mjög mikilvæga þingmál. Mig langaði til að koma upp til að lýsa yfir stuðningi mínum við málið og ég hlakka til að fá það inn í velferðarnefnd til umfjöllunar.

Þetta er mjög mikilvægt mál af því að í nútímasamfélagi er fólk að einangrast gífurlega mikið. Við sjáum þetta í nágrannalöndum okkar eins og Bretlandi þar sem er sérstakur einmanaleikaráðherra og víðs vegar í hinum vestræna heimi sjáum við að fólk er að einangrast, upplifa mikinn einmanaleika, tilgangsleysi. Þetta er raunverulegt vandamál sem er til staðar eins og kom fram í ræðunni áðan.

Mögulega er ein af ástæðunum sú að við vinnum allt of mikið. Við höfum allt of lítinn tíma til að vera með vinum okkar, með fjölskyldu, til að sinna okkar hugðarefnum og gera það sem við raunverulega brennum fyrir í lífinu. Það er ofboðslega lítill tími eftir. Við höfum allt of miklar áhyggjur af framtíðinni, skiljanlega. Við erum búin að ganga í gegnum efnahagshrun og sjá samfélagið eiginlega gjörbyltast og vitum að það gjörbyltist í framtíðinni og sjáum ekki að stjórnvöld hafi mjög framsýna framtíðarsýn eða taki á áhyggjum fólks nægilega vel. Ungt fólk sér ekki fram á að hafa sömu tækifæri og kynslóðirnar sem komu á undan.

Ég held að það sé mikilvægt að spyrja okkur hvort það sé ekki orðið tímabært að horfast í augu við að það er kannski eitthvað alvarlega mikið að í samfélaginu okkar. Þetta er ekki eðlileg þróun. Þetta er ekki þróun sem við viljum að haldi áfram þannig að þetta er mikilvægt skref. Við verðum að viðurkenna að sálfræðiþjónusta er hluti af forvörn sem er ofboðslega mikilvæg en þetta er einn hluti af lausninni. Við þurfum líka að horfa á stærri myndina og skoða hvernig við getum í raun og veru breytt þessu samfélagi þannig að ungt fólk sjái fram á að eiga tækifæri og framtíð hérna þar sem lífið snýst um meira en bara að vinna og taka endalausan þátt í þessari efnahagsvél sem við höfum stillt upp. Þetta er mitt innlegg inn í þessa umræðu.