149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

framlög til SÁÁ.

[13:41]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í gær mættu fulltrúar SÁÁ til fundar við Sjúkratryggingar Íslands. Í upphafi þess fundar var tilkynnt að svokallað viðbótarframlag á fjárlögum, þær 150 millj. kr. sem fjárveitingavaldið heimilaði til SÁÁ núna fyrir jólin, væri tímabundið og ekki kæmi til greina að gera samning sem mögulega gilti lengur en til næstu áramóta. Samningafólk Sjúkratrygginga hafði upplýsingar frá ráðuneytinu um að langur biðlisti væri eftir þjónustu á göngudeildum og það væri tímabundinn vandi sem ætti að leysa.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur gefið skýr fyrirmæli um að viðbótarframlagið eigi alls ekki að nota til að kaupa þjónustu sem þegar er verið að veita. Hér er verið að leysa einhvern ímyndaðan tímabundinn vanda. Það er auðvitað enginn biðlisti eftir þjónustu á göngudeild og í raun stórundarlegt og alvarlegt að þessu sé haldið fram af ráðuneytinu. Ríkið greiðir í dag ekki eina einustu krónu fyrir göngudeildarþjónustu SÁÁ og hefur ekki gert í mörg ár. Langur biðlisti er hins vegar eftir þjónustu á Sjúkrahúsinu Vogi eins og margoft hefur komið fram.

Þá var sagt frá því að fyrirhuguð meðferð ungmenna á Landspítala – háskólasjúkrahúsi yrði fjármögnuð með niðurskurði framlaga til Vogs og tilflutningi á þeim fjármunum til Landspítala – háskólasjúkrahúss. Það væri brot á þeim þjónustusamningi sem nú er í gildi um meðferð á Vogi. Það kemur í ljós að það þarf 530 innlagnir á Vog til að þjónustusamningurinn, sem nú er í gildi, sé gildur en raunin er sú að það eru um 2.200 innlagnir á Vogi.

Það er nú þegar búið að loka göngudeildinni á Akureyri. Það er þegar verið að fækka um 400 innlagnir. Það er enn þá þessi skelfilega ópíóíðafaraldur, sú fíkn þar sem við höfum í rauninni ekki fengið rönd við reist. Það er enn þá ákall úti í samfélaginu eftir því að útrýma biðlistum inn á Vog.

Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Á hvaða vegferð er hæstv. heilbrigðisráðherra?