149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

framlög til SÁÁ.

[13:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og áður hefur komið fram í orðaskiptum okkar hv. þingmanns er það svo að við afgreiðslu fjárlaga samþykkti Alþingi sérstaka tillögu fjárlaganefndar um viðbótarframlag fyrir SÁÁ. Það var áskilið í texta sem fjárlaganefnd skilaði af sér til þingsins að þessar 150 milljónir á árinu 2019 væru fyrst og fremst hugsaðar til göngudeildarstarfsemi. Það kom fram í texta.

Þar er væntanlega undir bæði langþráð rekstraröryggi göngudeildarþjónustu SÁÁ á Akureyri, sem hefur verið rætt ítrekað á Alþingi að sé skömm að ekki sé tryggilega búið um, og hins vegar sambærileg þjónusta í Reykjavík sem hefur ekki verið samningsbundin á nokkurn hátt. Það var vilji Alþingis sem voru greidd atkvæði um við afgreiðslu fjárlaga og það er vilji Alþingis sem er leiðarljósið sem Sjúkratryggingar Íslands hafa þegar gengið er til samninga við SÁÁ.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um sérstakan kostnað sem hlýst af rekstri þjónustu við börn og ungmenni í fíknivanda hjá Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi hefur ráðuneytið fengið áætlun spítalans í hendur og næstu skref eru að finna fjármagn til að hefja þá starfsemi eins fljótt og hægt er. Ég vonast til þess að við getum gert það í sumar en sannarlega þarf fjármagn til að sinna þeim mikilvæga hópi.