149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staðan á vinnumarkaði.

[14:01]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég kom inn á það í mínu fyrra svari að við ættum að grípa inn í gagnvart hækkun efstu launa í opinbera geiranum. Það er það sem ríkisstjórnin hefur þegar boðað og bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa gert það. Ég sagði jafnframt að þau laun sem heyra undir kjararáð eru í frosti, hækkanir þar eru í frosti og hafa verið. Eitt af því sem menn eru tilbúnir til þess að ræða er með hvaða hætti sé hægt að koma böndum á það þannig að þau kjör fylgi almennri launaþróun. Þess vegna var kjararáð tekið úr sambandi á sínum tíma.

Varðandi það að setja á hátekjuskatt þá hef ég alltaf verið talsmaður þess að skattkerfið sé með þeim hætti að þeir sem hafi hærri tekjur beri þyngri byrðar. Þess vegna var fjölgað um eitt þrep en hins vegar hefur ríkisstjórnin þegar boðað, eins og ég sagði, að tekið verði á hækkunum efstu launa í opinbera geiranum. Það er núna í vinnslu innan ríkisstjórnarinnar hvernig það verður gert og þar með er ríkisstjórnin (Forseti hringir.) að leggja sitt af mörkum, vil ég segja, til að koma böndum á efstu tekjurnar. Það er gríðarlega mikilvægt að það verði gert, að það takist (Forseti hringir.) og að við getum betur tekið á því að ekki séu tvær þjóðir í þessu landi vegna þess að það á ekki að vera þannig.