149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:30]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Hér er spurt hvort efla þurfi íslenska ferðaþjónustu. Því er til að svara að hún er þegar orðin mjög stór og öflug. Fyrst í stað var vöxturinn of hraður að mínu mati. Nú er tímabundin fækkun ferðamanna og hægari vöxtur fram undan, en það er ekki langt í að við sjáum 3–4 milljónir ferðamanna á Íslandi.

Spurningin er þá þessi: Er stóra málið að fjölga gestum eða bæta þjónustu eða bæði og eða annað hvort? Ég held að lykilatriðin séu þau sem hafa svo sem komið fram í máli manna, þ.e. sjálfbærnin, sú þríþætta sjálfbærni sem okkur verður tíðrætt um, og ég lít svo á að íslensk ferðaþjónusta sé það ekki nú. Hún er efnahagslega sjálfbær en varla á hinum tveimur sviðunum. Þannig að þegar kemur að eflingunni snýst málið um þolmarkagreininguna sem við höfum verið að fjölyrða um, og aðgangsstýringuna, bæði svæðisbundið, staðbundið og fyrir landið allt. Eflingin felst í þessum tveimur eða þremur lykilorðum, þ.e. sjálfbærni, gæðum og fjöldastýringu. Allt er það í anda sjálfbærrar þróunar.

Um markaðssetningu og uppbyggingu innviða vil ég segja að það vantar ákveðna hluti. Það vantar ferðamálastefnu sem er í vinnslu, það vantar landsskipulag nýtingarsvæða fyrir ferðaþjónustu, sem er líka vonandi í vinnslu, og síðan eru áfangastaðaáætlanir landshlutanna. Allt þetta þarf að ríma saman. Þegar kemur að þessum málum og eins að erlendri starfsemi þurfum við að hyggja að uppkaupum lands. Þar þarf að setja nýjar reglur, svo ég nefni það atriði líka.

Að lokum: Ferðaþjónusta verður að lúta sömu ívilnunum, skilyrðum og takmörkunum og aðrar atvinnugreinar. Hún er mikilvæg lyftistöng samfélagsins en hún má ekki gleypa aðrar greinar, jafn lifandi og hún er.