149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:20]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Forseti. Í sjálfu sér gæti ég svarað þessu með einu orði og sagt: Nei. En það er svo, og þess vegna benti ég á það hér áðan, að meðan menn hafa verið að moka þessari snjóhengju út, alltaf á lægra verði í hvert skipti, hafa safnast upp eignir á móti vegna þess að menn hafa komið í þetta vaxtaskjól. Það er efni í fyrirspurn til Seðlabanka Íslands, í gegnum hæstv. fjármálaráðherra, hversu mikið við höfum verið að greiða þessum aðilum í vexti undanfarin ár. Hvaða ávöxtun hafa þeir haft af fjárfestingu sinni hér innan lands? Það er efni, held ég, í mjög góða fyrirspurn og væri rétt að taka það mál upp, annaðhvort þar eða í sérstakri umræðu.

En nei, ég óttast ekki að menn flýi land með mikið af peningum. Seðlabankastjóri hefur verið í viðtölum undanfarið alldrýldinn og sagt að við séum vel vopnum búin og eigum mikið púður í tunnunni og ég veit ekki hvað frasa hann hefur ekki dregið upp til að sýna okkur fram á að Seðlabanki Íslands sé vel í stakk búinn, þrátt fyrir að menn færu eitthvað að hiksta núna. En sjóðir og aðilar sem fá aðra eins meðferð og þeir sem við erum að kveðja í dag, ef frumvarpið verður að lögum, koma alltaf aftur ef þeir eiga von á svipuðum trakteringum. Það er ekki nokkur vafi í mínum huga.

Hv. þingmaður talaði réttilega um þennan heimshluta. Það kann vel að vera að menn geti sölsað undir sig gull og demanta einhvers staðar í þróunarlandi og þénað vel á því. En í hinum vestræna heimi sé ég ekki nokkurn stað þar sem menn geta fundið viðlíka ávöxtun eða viðlíka vaxtakjör fyrir innlagða peninga og hér er að finna.