149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[13:37]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Að öllu eðlilegu ætti þessi dagur í dag að vera sérstakur fagnaðardagur fyrir hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Við erum að stíga eitt af lokaskrefunum í afnámi hafta, í að gera umgjörð íslensks efnahagslífs heilbrigðari og með svipuðum hætti og gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er alltaf hægt að finna einhverja hnökra á öllu og í staðinn fyrir að gleðjast, í staðinn fyrir að sjá möguleikana og tækifærin sem við erum að búa til, eru menn fastir í fortíðinni. Fortíðin hjálpar ekki íslenskum almenningi, það er framtíðin sem skiptir máli og við erum að taka ákvörðun um það hvernig við ætlum að byggja upp framtíðina en ekki byggja á einhverjum fortíðardraumum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)