149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

ákvörðun um áframhaldandi hvalveiðar.

[10:47]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Fyrir stuttu kom út skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Síðan hún var birt hefur hún hlotið mikla gagnrýni enda er margt gagnrýnivert við hana. Skýrslan er hreinlega ekki nægilega ítarleg til að hægt sé að taka ákvörðun um framtíð hvalveiða út frá henni. Fjallað er í nokkru máli í skýrslunni um hagfræðilegan grundvöll veiðanna og reyndar fer meiri hluti skýrslunnar bara í að ræða um hag þessa eina fyrirtækis sem stundar hvalveiðar og möguleg en þó alls ekki óumdeilanleg áhrif á fiskveiðar. Aðeins fara sex blaðsíður af 47 í að ræða um önnur þjóðhagsleg áhrif hvalveiða, aðallega áhrif á ferðaþjónustuna. Gagnrýni á þann hluta skýrslunnar hefur verið mikil og réttmæt. Heilli blaðsíðu er svo eytt í hugleiðingar um svokölluð hryðjuverk í nafni náttúrunnar og ýjað að því að Íslendingar geti bara ekki hætt að veiða hvali þar sem þá komist hryðjuverkasamtök á bragðið í kröfum sínum.

Forseti. Þetta er fáránlegur málflutningur. Í skýrslunni er ekki einu orði eytt í að ræða kolefnisfótspor hvalveiða, hvorki þegar kemur að eldsneytiseyðslu flotans né við veiðar eða við að koma vöru á markað hinum megin á hnettinum. Þá verður líka að hafa í huga að þegar hvalur deyr náttúrulega í sjónum tekur hann með sér og í raun bindur mikið magn kolefnis. Hvalir og önnur stór sjávardýr geta í raun dregið úr loftslagsbreytingum ef við bara hættum að veiða þau.

Í kjölfarið á útgáfu skýrslunnar undirritaði ráðherra reglugerð þar sem hann heimilar áframhaldandi hvalveiðar í fimm ár og vísað er í þessa skýrslu sem rökstuðning fyrir ákvörðuninni.

Forseti. Í ljósi þess að hvalveiðar hafa áhrif á starfssvið a.m.k. þriggja annarra ráðherra spyr ég: Var haft samráð við þá ráðherra sem þurfa að takast á við afleiðingarnar af þessu stórkostlega dómgreindarleysi, eins og t.d. umhverfisráðherra sem virðist vera lítið sáttur við þessa ákvörðun? Hvers vegna var ekki tekið tillit til loftslagsmála, mesta áhyggjuefnis samtímans, við ákvörðun um áframhaldandi hvalveiðar?