149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

Seðlabankinn.

[11:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Málefni Seðlabanka Íslands hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu og ekki af góðu einu. Í áliti umboðsmanns Alþingis frá því nú í janúar kemur eiginlega fram áfellisdómur yfir starfsemi Seðlabankans og hvernig hann hefur tekið á ákveðnum málum. Virtir lögmenn hafa látið hafa eftir sér að Seðlabankinn hafi farið á svig við lög, að það blasi við í áliti umboðsmanns.

Þá hefur líka komið fram að svo virðist sem seðlabankastjóri hafi óbeðinn haft hönd í bagga við álitsgerð sem bankaráðið er að vinna einmitt um þá háttsemi sem þarna hefur verið höfð uppi og alla vega tveir bankaráðsmenn hafa látið í ljós megna óánægju yfir vinnubrögðunum.

Einnig hefur komið fram að svo kunni að vera að Seðlabanki Íslands hafi skapað sér bótaskyldu með framferði sínu. Því vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða augum hún líti þá háttsemi sem Seðlabankinn hefur haft uppi og þá ítrekuðu, vil ég segja, vanvirðingu sem seðlabankastjóri hefur bæði sýnt lögum og bankaráðinu sjálfu. Telur hæstv. forsætisráðherra að seðlabankastjóri og hans helstu meðreiðarsveinar eigi að axla ábyrgð á því framferði sem hefur komið fram í þessu máli? Og þá hvernig? Hefur forsætisráðherra gert upp hug sinn varðandi það hvort rétt sé að þessi hópur í heild eða seðlabankastjóri sjálfur láti af störfum vegna þessara mála?