149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég hef verið hugsi vegna umræðunnar undanfarið um hvalveiðar og innflutning á fersku kjöti. Það blasir þannig við mér að ákveðinn tvískinnungur hefur einkennt umræðuna og virðist einkenna ákvarðanatöku stjórnvalda í þessum málefnum og öðrum þeim skyldum. Skortur á stefnumótun er ekki fyrir hendi og greiðir líklega ekki fyrir hinni oft og tíðum tilfinningaþrungnu umræðu.

Nú stendur til að flytja tvo mjaldra til Vestmannaeyja frá Sjanghæ. Mjaldrar eru „beluga“ hvalir og það á að selja ferðafólki aðgang til að skoða þá í manngerðum kvíum í þar til gerðu hvalagriðlandi.

Hér vakna strax nokkrar spurningar. Það virðist auðveldara að flytja inn lifandi hvali frá Kína en kött frá Danmörku. Umsóknir um leyfi, einangrunarvist og alls kyns flækjur fylgja því að flytja inn gæludýr frá Evrópu, en tiltölulega einfalt reyndist að fá leyfi fyrir mjöldrunum. MAST og ráðuneytinu fannst þetta ekki mikið mál en á sama tíma má ekki flytja inn nautasteikur frá Spáni. Mér finnst þetta ekki eðlilegt. Hvort ætlum við Íslendingar að standa að dýravelferð eða ferðaþjónustu? Hver á ímynd landsins að vera? Eigum við að vera griðland fyrir hvali eða ætlum við að drepa þá, drepa hvalina í kringum landið og flytja þá svo inn annars staðar að, jafnvel yfir hálfan hnöttinn? Þetta er ein umferðarþyngsta höfn landsins og verður lítið griðland fyrir vesalings hvalina þegar þeir koma.

Þetta minnir meira á dýragarð og ég veit ekki hvort um er að ræða dýravelferðar- eða ferðaþjónustuverkefni. Hvað á þetta að vera? Hvað ætlum við að gera við hvalina, og hvali almennt? Ætlum við að drepa þá, éta þá, hneppa þá í kvíar eða (Forseti hringir.) gefa þeim grið? Getum við ekki bara ákveðið það?