149. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2019.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

107. mál
[16:25]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, nánar tiltekið um starfskostnað. Það verður að segjast eins og er að þetta er kannski meira í naflaskoðun en gengur og gerist í meðalþingmálum hér innan húss. Þetta er þingmál sem snýr að vinnuaðstæðum okkar þingmanna sjálfra og það nokkuð afmörkuðum hluta þeirra aðstæðna, þ.e. þeim kostnaði sem við getum fengið greiddan frá skrifstofu þingsins til að standa straum af störfum okkar fyrir utan laun, endurgreiddan ferðakostnað og ýmislegt annað.

Með frumvarpinu er einfaldlega lagt til að starfskostnaður þingmanna verði einungis endurgreiddur samkvæmt reikningum og þar með falli brott heimild til að greiða starfskostnað sem fasta fjárhæð mánaðarlega. Þetta er breyting sem eðli máls samkvæmt hefur engan kostnað í för með sér. Þetta er mjög einföld og lítil breyting á kerfinu sem við störfum eftir en er breyting sem ég held að sé til þess fallin, ef vel tekst til, að auka traust á þau sem starfa innan þings.

Krafan um gagnsæi hefur stóraukist á síðustu árum og það að þingmenn fái án reikninga greiddar fastar 40.000 kr. á mánuði til að standa straum af starfskostnaði er að verða dálítil risaeðla þegar kemur að því hvernig við umgöngumst opinbera fjármuni. Þess vegna held ég að það væri betur til þess fallið að við legðum einfaldlega fram reikninga fyrir þeim 40.000 kr. á mánuði og þeir myndu birtast á vef Alþingis eins og við sjáum takast vel til með hjá ráðuneytunum og stofnunum á opnirreikningar.is.

Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að ráðherrar eigi ekki rétt á endurgreiðslu starfskostnaðar meðan þeir sem þingmenn gegna embætti sem ráðherrar, enda sé sá kostnaður greiddur af ráðuneytunum.

Ég ætla aðeins að fara yfir bakgrunninn, söguna, af því að mér finnst það skipta máli til að setja þetta mál í samhengi. Núverandi fyrirkomulagi á greiðslu starfskostnaðar þingmanna var komið á með samþykkt laga nr. 88/1995, þeirra laga sem hér er lagt til að breyta. Strax á næsta löggjafarþingi þar á eftir var ákvæðið um starfskostnað sérstaklega tekið upp og því breytt. Þá var upphafleg útfærsla þessa ákvæðis harðlega gagnrýnd af t.d. aðilum vinnumarkaðarins vegna þess að fyrsta misserið voru þessar föstu greiðslur skattfrjálsar með öllu. Eins og við getum vel ímyndað okkur býður það upp á ásakanir um sjálftöku, um að þingmenn búi við aðrar aðstæður en annað vinnandi fólk í landinu. Sú gagnrýni sem kom fram á vor- og sumarmánuðum 1995 varð til þess að þeirri undanþágu greiðslnanna frá skatti var vikið til hliðar þannig að þeir þingmenn sem kysu að taka starfskostnaðargreiðslurnar sem fasta mánaðarlega greiðslu þyrftu að borga af því skatt.

Í greinargerð með frumvarpinu á þessum tíma var ráðstöfunin að greiða starfskostnað sem fasta fjárhæð mánaðarlega útskýrð með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Fyrirkomulag líkt þessu er viðhaft í þingum nágrannalandanna enda þykir eðlilegt að þingmenn hafi sjálfdæmi innan ákveðins ramma um hvernig fé er ráðstafað í starfskostnað en eigi það ekki undir ákvörðunum embættismanna þingsins eða Stjórnarráðsins.“

Þau orð bera með sér innbyggða togstreitu varðandi þau mál sem enn er til staðar. Við tökumst oft á um það t.d. hversu mikið vald einstakra þingmanna er, hversu mikið þeir eru undir vald þingflokka settir. Slík umræða er í gangi núna varðandi starfsaðstöðu okkar þingmanna þegar aðstoðarmönnum sem ráðnir eru til þingflokka hefur verið fjölgað. Að vissu leyti er eðlilegt að einhver heimild til starfskostnaðar fyrir þingmann sem einstakling sé í lögum, enda er ekki lagt til að víkja henni brott í þessu frumvarpi, einfaldlega vegna þess að þingmannsstarfið er oft dálítið einyrkjastarf. Við erum að potast í okkar málum, sjá hvaða hugmyndum við viljum hrinda í framkvæmd sem kjörnir fulltrúar. Þá er óþarfaflækjustig að þurfa að sækja leyfi til skrifstofu Alþingis um það hvort við greiðum af starfskostnaði okkar fyrir þátttöku í tiltekinni ráðstefnu eða förum á ákveðin námskeið eða gerumst áskrifendur að þessu tímariti eða hinu dagblaðinu. Þingmaðurinn getur verið sín eigin skrifstofa upp að vissu marki, þótt til viðbótar njóti hann liðsinnis þingflokks og skrifstofu þingsins í ýmsum málum.

Þegar þetta ákvæði var upphaflega til umfjöllunar á 119. þingi, þinginu sem setti ákvæði um starfskostnað í fyrsta sinn í lög, lagðist minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar gegn þessari heimild en þá sérstaklega vegna þeirra ákvæða frumvarpsins að slíkar fastar greiðslur, starfskostnaður, skyldu vera skattfrjálsar. Svo fór á vordögum 1995 að ákvæðið sem lagt er til að falli brott með þessu frumvarpi naut stuðnings allra greiddra atkvæða í sal utan fjögurra þingmanna Þjóðvaka og eins úr þingflokki Alþýðubandalagsins og óháðra.

Forseti. Það sést að sagan nær það langt aftur frá því að síðast var hreyft við þeim málum að allir hlutaðeigandi tilheyrðu flokkum sem ekki eru lengur til, en svona geta stjórnmálin stundum verið sagnfræðileg og skemmtileg.

Á grundvelli laga nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, setti forsætisnefnd Alþingis reglur um þingfararkostnað 28. ágúst 1995. Þar sem þær reglur urðu til áður en Alþingi netvæddist almennilega fylgja þær frumvarpinu sem fylgiskjal, en 9. gr. þeirra reglna varðar almennan starfskostnað þingmanna. Ég kaus að láta þetta fylgiskjal fylgja með frumvarpinu til þess að geta undirstrikað hversu lítið reglurnar hafa í raun breyst á þeim langa tíma sem liðinn er síðan þær tóku gildi. Einna helst hefur þeim verið breytt til samræmis við breytta starfshætti þingmanna, t.d. hefur þörf fyrir endurgreiðslu vegna kostnaðar við faxtæki dregist nokkuð saman í seinni tíð en ástæða þótti til að hafa það í reglunum árið 1995.

Eins og reglurnar eru í dag á alþingismaður rétt á að fá endurgreiddan kostnað sem hlýst af starfi hans að hámarki 480.000 kr. á ári. Svo að ég hlaupi örsnöggt á því hvaða kostnað er um að ræða erum við að tala um fundi, ráðstefnur, námskeið og þess háttar, bækur, fréttablöð, tímarit og ritföng, póstburðargjöld og símakostnað í tengslum við sérstök starfstengd verkefni sem Alþingi greiðir ekki. Þetta ákvæði vekur mann til umhugsunar um hvort það sé orðið úr sér gengið þegar Alþingi greiðir nálega allan fjarskiptakostnað þingmanna samkvæmt reikningi eftir öðrum leiðum.

Síðan er hér heimild fyrir endurgreiðslu kostnaðar vegna móttöku gesta, blóm og gjafir, sem ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei nýtt mér þótt ég kunni ágætlega við blóm og gjafir. Einnig er heimild til endurgreiðslu vegna leigubifreiða, sem er aftur eitthvað sem mætti skoða vegna þess að ferðakostnaður er endurgreiddur sjálfstætt samkvæmt reikningum. Ef maður t.d. fer á fund fjarri starfsstöð geta þingmenn hvort heldur sem er tekið bílaleigubíl eða leigubíl og fengið þann kostnað sérstaklega endurgreiddan.

Það eru líka aðrir liðir, svo sem framlög og styrkir til stjórnmálaflokka og sérfræðiaðstoð og gerð kynningarefnis.

Herra forseti. Ég held að þetta séu allt liðir sem við megum staldra við og hugsa hvort séu kostnaðarliðir sem opinbert fé eigi að standa að baki, eða eru t.d. framlög okkar til stjórnmálaflokkanna okkar eitthvað sem við ættum kannski að taka á eigin reikningi? Ég tel svo vera.

Ég held að ef við næðum í gegn þeirri breytingu sem lagt er upp með í frumvarpinu, að allir reikningar væru opinberir, þyrftum við ekki að tiltaka upp á punkt og prik hvað það er sem við megum fá endurgreitt í reglum heldur myndi aðhaldshlutverk opinna upplýsinga þjóna þeim tilgangi sjálfkrafa.

Svo að við hverfum aftur í sagnfræðilega yfirferð varð talsverð umræða árið 1995 um fyrirkomulag endurgreiðslna starfskostnaðar, ekki síst vegna þess að forsætisnefnd ákvarðaði endurgreiðslu starfskostnaðar þingmanna á sama tíma og kjaradómur úrskurðaði nærri 10% hækkun á kjörum þingmanna og ýmissa háttsettra embættismanna og tæplega 20% hækkun til ráðherra. Það er kunnugleg saga. Innan verkalýðshreyfingarinnar heyrðust háværar raddir um að forsendur kjarasamninga væru brostnar og var sérstaklega vísað til skattfrjálsu starfskostnaðargreiðslnanna. Aftur er það kunnugleg saga.

Þetta skilur maður vel. Á þeim tíma nam þingfararkaup 195.000 kr. á mánuði á verðlagi þess tíma en skattfrjáls starfskostnaðargreiðsla var 40.000 kr. á mánuði. Að teknu tilliti til skattfrelsisins nam starfskostnaðargreiðslan því um þriðjungshækkun á grunnlaunum þingmanna haustið 1995 væri hún tekin sem föst greiðsla.

Gagnrýnin varð til þess að strax á haustþingi 1995 flutti forsætisnefnd ásamt formönnum þingflokka, annarra en þingflokks Þjóðvaka, frumvarp um breytingu á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað þar sem skattfrelsið var aflagt. Ekki voru allir á eitt sáttir og við afgreiðslu þess þingmáls lagði minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar fram breytingartillögu þess efnis að ráðherrar ættu ekki kost á endurgreiðslu starfskostnaðar með vísan til þess að þar sem venjan væri að ráðuneytin greiddu allan starfskostnað ráðherra hefði þetta atriði, með leyfi forseta, „orðið til þess að fólkið í landinu hafi alls ekki sannfærst um að hér væri um að ræða starfskostnaðargreiðslu til alþingismanna en ekki viðbótarlaunagreiðslu“, eins og Jóhanna Sigurðardóttir, flutningsmaður breytingartillögunnar, orðaði það.

Þá lagði Ögmundur Jónasson, þingmaður Alþýðubandalagsins og óháðra, fram breytingartillögu þess efnis að greiðsla á fastri fjárhæð yrði ekki heimil og einvörðungu yrði endurgreiddur starfskostnaður samkvæmt reikningum. Taldi Ögmundur að með því fyrirkomulagi sem lagt var til í frumvarpinu sætu alþingismenn uppi með greiðslur sem væru blanda af starfskostnaði og launahækkunum. Benti hann jafnframt á að með þeirri ákvörðun að skattleggja starfskostnaðinn væri í raun verið að viðurkenna að þar væri um launahækkun að ræða, a.m.k. að hluta til, með því að greiðslan félli undir lög um tekjuskatt.

Við lokaafgreiðslu frumvarpsins haustið 1995 hlaut hvorug þessara breytingartillagna brautargengi og frumvarpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum utan þingflokks Þjóðvaka, tveggja þingmanna Alþýðubandalags og óháðra og einnar þingkonu Samtaka um kvennalista. Hafa ákvæði laga um starfskostnað alþingismanna verið óbreytt síðan.

Eins og glöggir hlustendur taka eftir eru þær tillögur sem hér eru lagðar til þær hinar sömu og lagðar voru til við afgreiðslu málsins 1995 og felldar. En ég vil trúa því að afstaða fólks til þeirra mála hafi breyst nógu mikið frá árinu 1995 til þess að við teljum nú ástæðu til að samþykkja breytinguna.

Stór hluti af þeirri hörðu gagnrýni sem var höfð uppi á greiðslu starfskostnaðar þingmanna árið 1995 snerist um hvort hætt væri við að litið yrði á greiðslurnar sem launagreiðslur. Ég er ansi hræddur um að sú hafi orðið raunin. Það birtist kannski einna skýrast í janúar 2017. Þá brást forsætisnefnd við bréfi frá formönnum stjórnmálaflokkanna þar sem þess var farið á leit við nefndina að hún endurskoðaði reglur um þingfararkostnað. Tilefnið var nærri 45% hækkun kjararáðs á þingfararkaupi. Það varð tillaga forsætisnefndar að lækka greiðslur fyrir ferðakostnað í kjördæmi um 54.000 kr. og starfskostnað um 50.000 kr. Starfskostnaðargreiðslurnar fóru þá úr 90.000 kr. í 40.000 kr. á mánuði. Í tilkynningu forsætisnefndar er þeim upphæðum jafnað til launagreiðslu þannig að, með leyfi forseta: „Samanlagt má jafna þessari lækkun við 150 þús. kr. fyrir skatt.“

Þarna er þetta orðið að mati þess sem hér stendur fullmikill grautur á milli starfskostnaðar og launa.

Svo er vert að nefna að þessi umræða fer ekki fram í tómarúmi. Undanfarið misseri hefur mikil umræða átt sér stað um það hvernig best sé að haga endurgreiðslunni og útlögðum kostnaði kjörinna fulltrúa vegna starfa þeirra almennt. Nærtækasta dæmið er gagnrýni á háar endurgreiðslur aksturskostnaðar þingmanna vegna notkunar á eigin bílum, sem varð til þess að forsætisnefnd Alþingis skerpti á reglum og jók gagnsæi. Í framhaldi af þeirri umræðu fór Alþingi að birta á vef sínum upplýsingar um þann kostnað sem þingmenn fá endurgreiddan. Ég sló því upp á þeim vef að endurgreiðslur vegna ferða á eigin bifreið námu nærri 28 millj. kr. árið 2017 en voru komnar niður í 8,6 milljónir á síðasta ári, sem ég tel endurspegla það aðhaldshlutverk sem felst í opnun gagnanna, vegna þess að sú aukning sem á móti varð í ferðum með bílaleigubíl nam ekki nema 6 milljónum á móti þeim 19 sem notkun eigin bifreiða lækkaði um.

Þegar forsætisnefnd úrskurðaði um akstursgreiðslurnar kom enn fram með skýrum hætti að ekki sé litið á endurgreiðslu starfskostnaðar sem eðlilegan útgangspunkt en föstu greiðslurnar sem undantekninguna, eins og orðalag reglnanna hljóðar, heldur stendur í tilkynningu forsætisnefndar, með leyfi forseta:

„Almennt fá þingmenn greiddan fastan starfskostnað og greiða af honum staðgreiðslu. Þeim er þó heimilt að leggja fram reikning og kemur fjárhæð þeirra þá til lækkunar á staðgreiðslugrunni.“

Sú afgreiðsla forsætisnefndar sýnir að það var full innstæða fyrir áhyggjuröddunum árið 1995 um að starfskostnaður myndi í tímans rás verða einhvers konar ígildi launa og þar með launa sem þingmenn ákvarða fyrir sjálfa sig án umræðu í þingsal einu sinni, þetta er ákvörðun sem er tekin á lokuðum fundum forsætisnefndar.

Með frumvarpi þessu er lagt til að hætt verði að greiða fastan starfskostnað mánaðarlega enda virðist hann, eins og ég hef komið nokkrum sinnum inn á, í mörgum tilvikum í raun þjóna hlutverki launauppbótar sem forsætisnefnd skammtar þingmönnum. Ekki er lagt til að hrófla við upphæðinni sem slíkri heldur einungis að hún verði greidd gegn framvísun reikninga. Er að mati þeirra sem að málinu standa eðlilegt að birta afrit þeirra reikninga á vef Alþingis líkt og gert hefur verið varðandi ýmsar aðrar greiðslur frá því í febrúar 2018. Með því að þrengja reglur um starfskostnað þingmanna á þann hátt, auk þess að tryggja gagnsæi við endurgreiðslu þess kostnaðar, er það von okkar flutningsmanna að hægt sé að stuðla að auknu trausti til Alþingis og sýna fram á ábyrga ráðstöfun opinbers fjár.

Svo að ég geri stuttlega grein fyrir greinum frumvarpsins er í 1. gr. lögð til sú breyting á 5. gr. laganna að þingmenn eigi ekki rétt á endurgreiðslu starfskostnaðar þann tíma sem þeir gegna ráðherraembætti. Núna er það svo að 5. gr. vísar til 9. gr. um skrifstofuaðstöðu sem ráðherrar fá ekki frá Alþingi og starfskostnað sem ráðherrar fá frá Alþingi líkt og aðrir þingmenn. Hér er lagt til að öll 9. gr. verði undanskilin þegar kemur að ráðherrum. Samsvarandi ákvæði var lagt fram af Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanni Þjóðvaka, sem breytingartillaga minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarpið frá árinu 1995 sem hefur áður verið nefnt.

Með 2. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á 9. gr. laganna að heimild til að greiða starfskostnað þingmanna sem fasta mánaðarlega greiðslu verði felld brott, einföld breyting sem felur bara í sér að ein setning er strikuð út.

Verði breytingin að lögum verður einungis heimilt að greiða samsvarandi upphæð til þingmanna gegn framvísun reikninga, en um hámark þeirrar upphæðar og framkvæmd endurgreiðslunnar og aðra útfærslu fer eftir sem áður samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar.

Samsvarandi ákvæði var lagt fram af Ögmundi Jónassyni, sem mér telst til að hafi á þeim tíma verið þingmaður Alþýðubandalagsins og óháðra, sem breytingartillaga við frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað á 120. löggjafarþingi.

Virðulegur forseti. Ég er búinn að nefna breytingar á samfélaginu sem gera þetta skref enn eðlilegra en það var árið 1995 en svo er líka hægt að nefna tækniþróun. Árið 1995 voru þrjú ár í það að netútsending hæfist af fundum Alþingis. Árið 1995 var aðgengi almennings að upplýsingum í gegnum netið ekkert í líkingu við það sem við þekkjum í dag. Það má í raun halda því fram að þetta frumvarp snúist um að uppfæra reglurnar í takt við nýja tíma. Reglurnar voru settar árið 1995 og við þeim hefur ekki verið hróflað af neinu viti síðan. Það er löngu kominn tími til þess, líka vegna þess að þetta er hluti af enn lengri þróun sem mætti kalla það hvenær þingmennska varð atvinnumennska, eins og það er orðað í meistararitgerð eftir Sigurjón Skúlason sem ég rakst á og mæli með við alla áhugamenn um þau mál, ritgerð sem heitir „Sínum augum lítur hver á silfrið“, þar sem Sigurjón heldur því fram og færir fyrir því góð rök að þingmennska hafi ekki byrjað að vera atvinnumennska fyrr en á seinni hluta sjöunda áratugarins. Fram að því hafi hún verið vertíðarvinna. Þingmenn fengu laun eftir dagpeningakerfi eftir því hversu margir þingfundadagarnir voru. Það er á seinni hluta sjöunda áratugarins sem við förum að stíga skref í þá átt að þingmennska sé fullt starf. Í rauninni gerist það ekki fyrr en kannski á níunda áratugnum að hún verður fullt starf sem fólk getur haft að aðalstarfi og eina starfi. Lög um þingfararkostnað koma fram árið 1995 þegar þingmennskan er að taka á sig þá mynd að hér starfi fólk af fagmennsku í fullu starfi og sinni þinginu einu. Hluti af þeirri fagmennsku í dag er að við sýnum að við stöndum undir traustinu sem okkur er sýnt, m.a. með því að alltaf liggi fyrir (Forseti hringir.) hvernig við ráðstöfum þeim fjármunum sem við getum persónulega nálgast.