149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[14:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má alveg skilja mig þannig að það eigi að fara meira í rannsóknir, fyrst og fremst til að halda rannsóknum áfram, fyrst og fremst til að vera viss um að við séum með tögl og hagldir í þeim málum, séum að feta hinn örugga veg. Ég tel ekkert óeðlilegt að til að mynda vöktun á laxveiðiám á svæðinu og slíkt sé eitthvað sem fyrirtækin sem njóta komi að því að fjármagna ásamt öðrum rannsóknum og hef svo sem heyrt hjá þeim að þau eru mjög tilbúin í það, af því að hagsmunirnir eru í raun svo miklir hvar sem er komið að. Ávinningurinn er verðmæt störf. Ávinningurinn er mikil útflutningsverðmæti. Það er farið að byggja við leikskóla, komnar eru bekkjardeildir í skóla fyrir vestan. Það er ánægjulegt að sjá ungt, vel menntað fólk koma sér fyrir til að byggja til lengri tíma. Það er gjörbreyting í samfélaginu. Ég hef ekki orðið vitni að öðru eins tækifæri í byggðaþróun og því sem er á þessum svæðum í tengslum við laxeldið. Við verðum auðvitað að horfa til þess líka þótt við verðum að reyna að feta hina varkáru leið.

Þá kemur að umræðu um gjaldtöku og hvort við eigum að stíga skrefið í þá átt eins og Norðmenn hafa gert. Ég held að sjálfsagt sé að beita einhvers konar gjaldtöku á þá grein eins og svo margar aðrar atvinnugreinar en gæta verður hófs í því, ekki síst á uppbyggingartíma. Ég vil líka sjá meiri ávinning byggðanna í afkomu á slíkum svæðum. Við settum lög í fyrra um skipulagsvald (Forseti hringir.) á strand- og hafsvæðum. Ég vildi að skipulagsvald sveitarfélaganna yrði fært út og þau gætu til að mynda fengið ígildi fasteignagjalda af kvíunum. Þau fá þannig séð ekkert beint af þeim í dag. Það er til margs að horfa í því, (Forseti hringir.) m.a. til þáttar sveitarfélaganna. En aðalatriðið er að gjaldtakan má ekki vera það mikil að hún hamli uppbyggingu.