149. löggjafarþing — 79. fundur,  18. mars 2019.

viðbrögð stjórnvalda við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu. Munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:30]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þessa umræðu sem hæstv. forsætisráðherra leiðir. Í stuttri ræðu kemst maður ekki yfir eins viðamikið málefni og hér er á dagskrá, en fyrri ræðumenn hafa margir hverjir farið vandlega yfir málsatvikin. Við ræðum hér tæplega vikugamla niðurstöðu dóms Mannréttindadómstóls Evrópu, sem sett hefur dómskerfi landsins í uppnám, og að dómsmálaráðherra ákvað að stíga til hliðar.

Það er enginn vafi í hugum manna að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur mörgu áorkað á sviði mannréttinda og komið mörgu góðu til leiðar og okkur er kennt að deila ekki við dómarann. Í minnihlutaálitinu eru uppi getgátur um að dómur meiri hlutans taki mið af pólitík. Það eitt og sér er auðvitað mjög alvarlegt, að dómarar skuli hafa uppi slíkar hugleiðingar í séráliti sínu. Það er auðvitað mjög miður ef niðurstaðan verður sú að Mannréttindadómstóllinn hafi kveðið upp dóm sem rýrir tiltrú ansi margra á dómstólnum hér á landi. En hvert erum við komin nú þegar dómstóllinn dæmir Íslandi í óhag í máli þar sem löggjafarvaldið hafði kosið dómara í Landsrétt og forseti vor sérstaklega kannað málið og ekkert fundið athugavert og Hæstiréttur Íslands loks talið, þrátt fyrir annmarka í málsmeðferð, að umræddir dómarar væru óhlutdrægir og löglega skipaðir í sín störf?

Þrátt fyrir að allir handhafar opinbers valds hér á Íslandi hafi þannig lagt blessun sína yfir skipan þessara dómara setur Mannréttindadómstóllinn dómskerfið hér í algjört uppnám og liggur á sama tíma undir ámæli um að hlaupa á eftir pólitískum hliðarvindum. Má álykta sem svo að allir þessir æðstu aðilar í stjórnkerfi íslenska lýðveldisins hafi verið svo glámskyggnir á málið og framkvæmd þess?

Á það hefur verið bent, m.a. af fyrrverandi dómsmálaráðherra, Ögmundi Jónassyni, að staða mannréttindamála í Tyrklandi sé afar bágborin, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Mál vegna meintra voðaverka tyrkneska hersins sem fara átti fyrir þennan sama mannréttindadómstól hlaut þau örlög fyrir dómstólum að ekki væri unnt að fjalla um málið þar sem ekki væri búið að tæma það fyrir innlendum dómstólum. Það átti sem sagt eftir að fara með málið fyrst alla leið í gegnum nánast óstarfhæft dómskerfi í Tyrklandi áður en Mannréttindadómstóllinn gæti farið að fjalla um það.

Fyrst við erum farin að tala um mikilvæg mannréttindamál leiðir það hugann að stöðu mannréttindamála í Katalóníu á Spáni. Þar börðust stjórnmálamenn fyrir sitt heimahérað, en sitja í fangelsi vegna þess að þeir voru að sinna sínum stjórnmálalegu markmiðum sem ekki hugnuðust stjórnvöldum í Madríd.

Eins ótrúlegt og það er eru mjög alvarleg mannréttindabrot framin á meginlandi Evrópu án þess að sjá megi viðbrögð sem einhverju skipta eða að stjórnvöld sem ábyrgð bera á þeim séu knúin til að láta af þeim. Gæti verið að annars konar og mun alvarlegri glámskyggni sé víðar að finna?

Í umfjöllun um dóminn hefur ekki vantað uppástungur, og viðbrögð við honum hafa farið um alla fjölmiðla sem á átta hófum Sleipnis að undanförnu. Landsréttur hefur brugðist við. Ég hefði talið að farsælast væri að eyða óvissunni sem allra fyrst og að leitast yrði við að lagfæra málið hér innan lands. Það gengi að meginstefnu til út á að gera Landsrétt og dómskerfið starfhæft að nýju.

Síðan þarf að taka til höndunum og koma skipun dómara í ásættanlegt horf þar sem ég tel nauðsynlegt að gera ráðherra dómsmála ábyrgan fyrir vali á dómurum þannig að á grundvelli niðurstöðu hæfisnefndar, þar sem umsækjendum er raðað í fáa hæfnisflokka, geti ráðherra skipað dómara úr hópi hæfra umsækjenda.

Herra forseti. Aðkoma Alþingis á skipun dómara er vægast sagt vafasöm og hefur það sem best komið í ljós í umræddu Landsréttarmáli.