149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

útgjöld vegna hælisleitenda.

[13:51]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og vil taka undir með henni að það skiptir öllu máli að kerfið sé skilvirkt því að hér eru undir miklir fjármunir sem ekki nýtast í annað. Sömuleiðis er afar mikilvægt að haldið sé fast við fjárlög og í þriðja lagi er mjög mikilvægt að héðan séu ekki send skilaboð sem eru fallin til að hvetja fólk til að leita hælis hér á landi sem ekki fullnægir neinum skilyrðum til slíks.

Við þekkjum umræðna um tilhæfulausar umsóknir. Ég leyfi mér að varpa þeirri spurningu fram hvort ráðherra deili með mér áhyggjum af því að borgaryfirvöld skuli hafa staðið fyrir því að leyfa þessa tjaldbúð hér og æðstu menn þjóðkirkjunnar skuli hafa staðið fyrir því að breyta sjálfri dómkirkju landsins í einhvers konar almenningsnáðhús, leyfi ég mér að segja, svo að mótmæli sem snúa að því að opna landamærin nái fram að ganga. (Gripið fram í.)