149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

skráning og mat fasteigna.

212. mál
[15:19]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni framsöguna og geri ekki neinar stórkostlegar athugasemdir við þetta mál. Mig langar aðeins að heyra frá þingmanninum, af því að ég sé fljótt á litið ekki að það komi fram í nefndarálitinu, alla vega ekki sem neinu nemur, hvernig Samtök íslenskra sveitarfélaga hafi tekið á þessu máli. Þingmönnum er fullljóst að það skiptir sveitarfélögin gríðarlega miklu máli hvernig fasteignir eru verðmetnar, með hvaða hætti það er gert. Allar breytingar þar á hefði maður fyrir fram haldið að sveitarfélögin hefðu viljað gera nokkrar athugasemdir við.

Ég játa það fúslega að mér hefur ekki gefist tími til að lesa umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, en mig langar aðeins að heyra — kannski ekkert endilega mikið um umsagnirnar sjálfar heldur meira hvort farið hafi fram umræður í hv. nefnd um það með hvaða hætti þetta hafi áhrif á sveitarfélögin og hvort þau meti það sem svo að það hafi umtalsverð áhrif á þennan annan aðaltekjustofn sveitarfélaganna.