149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

skráning og mat fasteigna.

212. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir andsvarið. Hann ræðir þátt sveitarfélaganna og umsögn. Því er fljótsvarað að sveitarfélögin tóku mjög jákvætt í þetta mál, sérstaklega í ljósi þeirrar breytingar sem hér er lögð til með meðalhóf að leiðarljósi. Nefndin leggur til breytingu um að fyrst og fremst sé aðgengi að þeim gögnum sem eiga við til að tryggja réttasta matið hverju sinni. Ég held að það sé það sem skipti öllu máli í þessu, að nauðsynleg gögn liggi fyrir hjá Þjóðskrá og að aðgengi sé að þeim gögnum þannig að sem réttastar upplýsingar séu fyrir hendi.

Ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um það. Það kom vel fram í máli þeirra sem sendu umsögn um málið og komu fyrir nefndina að það vandasamasta við að beita þessari tilteknu aðferð, tekjuaðferð, væri helst að hafa öll gögn fyrirliggjandi til að meta sem réttast verð þannig að það hafi ekki áhrif á aðra þætti, eins og fram kemur í nefndarálitinu og ég fór yfir í ræðu minni. En sveitarfélögin voru sátt við sérstaklega þá breytingu sem lögð er til og það voru líka allir aðrir umsagnaraðilar. En ég vil ítreka það sem fram kemur í nefndarálitinu og nefndin lagði mikla áherslu á, að þess utan verður haldið áfram með endurskoðun á þessu regluverki.