149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

skráning og mat fasteigna.

212. mál
[15:23]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þingmanninum er væntanlega kunnugt um að ég hef í gegnum tíðina átt kost á því að sitja þeim megin borðs, þ.e. sem sveitarfélögin eru, og velta því fyrir mér á hverju ári með hvaða hætti leggja ætti á fasteignagjöld í einu af stærri sveitarfélögum landsins. Þar hefur oft komið upp sú umræða hversu nákvæmt matið sé — við skulum bara tala mannamál; þ.e. hversu vel nýttur þessi skattstofn er fyrir sveitarfélögin og hvernig hann getur þjónað sveitarfélögunum sem best.

Eitt af því sem oft hefur komið upp í þeirri umræðu er að matið sem kemur út á hverju ári, sem er reyndar aðeins reifað í greinargerðinni með frumvarpinu, kemur ekki út fyrir mjög síðla árs, oft og tíðum ekki fyrr en eftir að fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna liggja fyrir.

Mig langar aðeins að heyra í hv. þingmanni hvort það hafi eitthvað verið rætt í nefndinni hvort freista ætti þess að nota þessa ferð til þess að ýta við fasteignamatinu þannig að það komi aðeins fyrr, m.a. til að bæta áætlanagerð sveitarfélaganna og tryggja þegar kemur að álagningunni að miðað sé við réttan skattstofn.