149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:12]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil alls ekki gera lítið úr þeirri vá sem fylgir áfengissýki og ég geri mér grein fyrir því að drykkjusýki hefur verið þjóðarsjúkdómur á Íslandi og að ekki er til sú fjölskylda hér á landi sem ekki hefur haft kynni af þeim sjúkdómi. Mig langar að inna hv. þingmann aðeins betur eftir því hvort hann telji það virkilega svo að hér fyrr á árum, áður en bjór kom til sögunnar og aukin neysla á léttvínum, að sú ofsadrykkja sem tíðkaðist um helgar, þegar menn drukku frá sér ráð og rænu og leiddu stórkostlegar hörmungar yfir sjálfa sig og fjölskyldur sínar með ofsadrykkju — hvort hann telji virkilega að það almenna ástand í (Forseti hringir.) drykkjumenningu hafi verið æskilegra og betra en sú drykkja sem þó tíðkast (Forseti hringir.) nú til dags með öllum þeim vandamálum, vissulega, sem henni fylgja.