149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, það er ýmislegt sem getur pirrað okkur, það er alveg ljóst. Ég vil ekki meina að það sé tvískinnungur í því hvort við kaupum áfengi í verslun í flöskum eða hvort við kaupum það í glasi á vínveitingastað eða á veitingastað. Þess neytum við þar á staðnum í tiltekinn tíma meðan við erum þar inni. Við getum ekki tekið það með okkur út, við getum ekki tekið það með okkur heim til okkar og boðið í matarveislu þar, eða eitthvað slíkt, þannig að það er ólíku saman að jafna. Það má heldur ekki færa umræðuna á það plan, eða mér finnst hún vera svolítið komin á það plan, að þetta sé svo léttvægt að það skipti ekki svo miklu máli. Þess vegna spyr ég: Hverju þarf að breyta og af hverju? Mér finnst það ekki vera sýnilegt. Mér finnst rökin fyrir því sem talsmenn færa fram ekki nógu sterk.

Ég vil horfa á þær tölur sem við höfum fengið frá stofnunum sem segja okkur að þetta sé sterkasta leiðin til að sporna við vanda sem fylgir neyslu, ekkert alltaf, en stundum. Ég segi þá bara frekar eins og ég endaði mitt svar áðan: Ef það er eitthvað í löggjöfinni sem við þurfum að lagfæra þá getum við gert það. En ég sé ekkert sem réttlætir að taka þetta úr höndunum á ríkinu þegar allar rannsóknir mæla gegn því. Ég veit ekki um neina rannsókn sem sýnir að það sé best að hafa flugelda á tilteknum stað. Ef það kæmu fram rannsóknir um skotvopn eða flugelda sem segðu það, þá þyrftum við á Alþingi að taka það til skoðunar. Þær liggja ekki fyrir. Mér finnst hér mjög ólíku saman að jafna. (Forseti hringir.) Það liggur mjög margt undir.