149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[18:03]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna því gríðarlega að umræða um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Fiskistofu sé hafin í þingsal enda lagði ég sjálf mikla áherslu á það í starfi mínu sem nefndarmaður í atvinnuveganefnd að umræðan fengi að koma hingað. Hvers vegna? Vegna þess að um er að ræða gríðarstórt hagsmunamál fyrir þjóð okkar. Það eru ríkir almannahagsmunir undir í þessari næststærstu atvinnugrein þjóðarinnar og við eigum því mikið undir að sem best sé farið með hana í öllu tilliti fiskveiðistjórnar.

Eins og komið hefur fram í dag er skýrslan mjög góð og ítarleg og komið er inn á þau atriði sem mikilvægast er að tækla sem allra fyrst. Eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur gefið út er búið að skipa samráðsnefnd sem í sitja 21 einstaklingur. Það er sannarlega rétt skref fram á við í málinu fyrir margra hluta sakir, bæði vegna þess að þetta þarfnast heildarendurskoðunar strax og eins vegna þess að áberandi er þegar maður les skýrsluna að skortur er á samráði mismunandi hópa, mismunandi hagsmunaaðila, mismunandi undirstofnana, ríkis og þeirra sem raunverulega snúa að fiskveiðieftirliti á Íslandi og atvinnugreininni allri. Þegar skortur er á samráði myndast oft skortur á trausti líka. Það ætla ég að taka fyrir í lok umræðunnar.

En skýrslan er góð og snýr í grófum dráttum að hlutverki og rekstri Fiskistofu, eftirliti með vigtun sjávarafla, eftirliti með brottkasti og eftirliti með samþjöppun aflaheimilda. Þetta eru þau atriði sem snúa að Fiskistofu.

Það fyrsta sem rætt var í nefndarvinnunni sem ég tók þátt í var að Fiskistofa væri undirmönnuð og fjársvelt. Svo virðist sem flutningur Fiskistofu frá Reykjavík til Akureyrar hafi eftir á að hyggja ekki verið mjög skynsamleg aðgerð, alla vega ekki nógu vel undirbúin til að Fiskistofa gæti haldið áfram að starfa vel og af natni fyrir norðan. Þetta þarf að skoða og klárlega læra af. Það má ekki taka geðþóttaákvörðun um að flytja jafn mikilvæga starfsemi þar sem ríkir almannahagsmunir eru undir, stór atvinnuvegur, norður eða suður eða hvert á land sem er án þess að slíkt sé undirbúið og farið í þá nauðsynlegu greiningarvinnu sem þarf til þess að taka upplýsta ákvörðun um hvort það sé góð hugmynd eða ekki. Þá þarf að vera búið að gera ráðstafanir þannig að ef það eru brotalamir í upphafi starfseminnar á nýjum stað sé hægt að bregðast við því hratt og örugglega.

Því miður hjó ég eftir því í máli hæstv. sjávarútvegsráðherra þegar hann ræddi akkúrat þetta atriði að það var svolítið eins og hann væri enn að vona það besta í þeim efnum, flutningurinn hefði átt sér stað, þetta væri búið og gert og um byrjendavandræði og mistök væri að ræða sem myndu einhvern veginn lagast af sjálfu sér. Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra taki aðeins fastar á því úr embætti sínu og ráðuneyti og treysti ekki bara á guð og góðan vilja í þeim efnum.

En aftur að skýrslunni og umfjöllun nefndarinnar um hana. Öll helstu atriðin hafa komið fram í dag og ég þarf svo sem ekki að drepa á þeim öllum. Ég ætla að fara út í það sem kollegi minn, hv. þm. Jón Þór Ólafsson, lagði gríðarlega áherslu á áðan þegar hann beindi því til hæstv. ráðherra að ýmislegt væri hægt að gera núna strax. Það eru hæg heimatökin, hefði maður haldið, hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að ráðast í marga hluti strax. Við höfum raunverulega ekki efni á því að bíða eftir niðurstöðum samráðshópsins. Þær verða væntanlega mjög góðar og ítarlegar og mjög þarft plagg að rýna í og nota til úrbóta í málaflokknum en við höfum ekki efni á því að bíða eftir því starfi sem tekur eðli málsins samkvæmt tíma. Það eru margir hlutir sem ráðherra getur farið í strax og ég hvet hann til að taka orð hv. þm. Jóns Þórs Ólafssonar til sín og skoða hvað hann getur gert nú þegar.

Það helsta sem kom þeirri sem hér stendur á óvart var hversu lítil meðvitund var hjá atvinnuvegaráðuneytinu í sambandi við brottkastsvandamálið. Það kom mér svolítið spánskt fyrir sjónir að það skyldi koma ráðuneytinu á óvart.

Ég vildi að ég hefði meiri tíma til að fara í öll þau atriði sem ég tel að ráðherra geti farið í strax en t.d. virðist vigtun á hafnarvog á forræði Fiskistofu vera næsta rökrétta skrefið í þeim efnum. Nú er ísprósentusvindl mikið vandamál í málaflokknum, í atvinnugreininni. Fyrir þá sem eru ekki sérstaklega vel að sér í ísprósentu og því hvernig hún tengist því sem við erum að ræða snýr það að endurvigtunarleyfum. Þá er það t.d. þannig að menn vigta fiskinn í höfn á hafnarvog og þar er einhver ákveðin ísprósenta áætluð. Svo hafa menn leyfi til að endurvigta í frystihúsi og segja jafnvel: Þetta er miklu hærri prósenta en við héldum, en fyrri vigtun sagði til um. Þeir segja kannski að 25% sé ísprósentan.

Það eru því miður svoleiðis hlutir í gangi. Í langflestum tilfellum er um heiðarlega vinnu að ræða, alveg þvert á atvinnugreinina. En við erum að ræða brotalamirnar hér og þá er eðlilegt að fara í þær. Til dæmis þarf að festa ísprósentuna. Ef það væri hafnarvog á forræði Fiskistofu og föst ísprósenta upp á til að mynda 5% og ef endurvigtunarleyfið væri skoðað af meiri gaumgæfni væri minni hætta á slíkum brotum. Þetta er eitthvað sem ráðherra gæti farið strax í.

Nú er tíminn að renna út svo að ég ætla að fara í það sem ég lofaði í upphafi máls míns, sem er áberandi skortur á trausti innan greinarinnar. Það er ekki aðeins skortur á trausti heldur finnur maður raunverulega fyrir tortryggni. Það er ekki gott í neinu samstarfi. Til dæmis kom fram að mönnum sem vinna við eftirlit á skipum líði oft ekki eins og þeir séu velkomnir þar. Þegar menn eru bara að vinna vinnuna sína getur verið töluvert álag að upplifa sig ekki velkominn í húsi eða á sjó í þessu tilfelli. Ég bind vonir við að samráðshópurinn muni bæta eitthvað úr því.

Mig langar að ljúka máli mínu á þeim orðum að ég vona að hæstv. sjávarútvegsráðherra hlusti á þetta atriði vegna þess að traust, samráð og samvinna eru svo gríðarlega stórir þættir í starfsemi sem er stór í sniðum. Ég vona að ráðherra fari vel yfir það svo að slík starfsemi sé skilvirk (Forseti hringir.) fyrir okkur sem þjóð.