149. löggjafarþing — 81. fundur,  20. mars 2019.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

688. mál
[18:13]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér þessa skýrslu sem hv. þm. Oddný Harðardóttir bað um og margir þingmenn hafa tekið til máls og lýst því ágætlega sem í skýrslunni er að finna og líka skoðunum sínum á því hvernig brugðist verður við henni. Ég ætla ekki að fara að lengja þann bálk neitt að ráði. Ég ætla bara að nefna hér örfá atriði.

Ég vil byrja á því að nefna sérstaklega þá fjóra menn sem stigu fram og lýstu í viðtali við Kveik þeim aðferðum sem þeir höfðu orðið vitni að og hrundu þessu máli af stað, sem er þá komið hingað og fer vonandi í ferli sem leiðir til úrbóta. En þessir menn hættu afkomumöguleikum sínum og vinnu sinni og ég held að þeir eigi skilið þakklæti fyrir sinn atbeina og fyrir sína framgöngu. Við þurfum vissulega að draga lærdóma af þessu máli, ýmsa lærdóma, og við munum gera það.

Það er ýmislegt sem kannski blasir meira við en annað, þar á meðal er það að við eigum ekki að leggja eyra við því tali sem oft heyrist og oft hefur heyrst í gegnum tíðina, að eftirlit sé slæmt, að eftirlit sé óæskilegt. Það var meira að segja búið til sérstakt orð hér fyrir nokkrum árum, orðið eftirlitsiðnaður, sem átti að gefa til kynna að eftirlit væri svona eitthvað sem kæmi af sjálfu sér og hefði eftirlit með sjálfu sér og væri til fyrir sjálft sig frekar en í almannaþágu. Eftirlit er í almannaþágu og til almannaheilla. Við skulum alltaf muna það.

Þetta má kannski setja í samhengi við áform sem uppi eru í lagafrumvarpi sem liggur hér fyrir Alþingi, stjórnarfrumvarpi um fiskeldi, þar sem áform eru um að sett verði samráðsnefnd um fiskeldi svokölluð, þar sem eiga að sitja hagsmunaaðilar og hagsmunaaðilar geta jafnvel myndað meiri hluta í þessari samráðsnefnd. Og þessi samráðsnefnd á að leggja mat á rannsóknir Hafrannsóknastofnunar, hún á að leggja mat á forsendur og úrvinnslu gagna Hafrannsóknastofnunar á áhættumati. Hún á sem sagt að líta eftir áhættumati og hafa eftirlit með eftirlitinu. Hagsmunaaðilar eiga að hafa eftirlit með eftirlitinu. Það er í raun það sem kannski hefur að einhverju leyti gerst varðandi Fiskistofu, þ.e. að hagsmunaaðilar hafa fengið að ráða of miklu um þann aðbúnað sem Fiskistofa býr við. Það er ástæða til að vara við því að slík sjónarmið séu ráðandi þegar um er að ræða umgengni við auðlindir okkar, enda er þessi umgengni ekki einkamál þeirra sem nýta auðlindirnar hverju sinni.

Ég held að það verði að játa að flutningur Fiskistofu til Akureyrar frá Hafnarfirði veikti Fiskistofu ansi mikið. Það var ekki gæfuspor að öllu leyti þó að vissulega sé rétt að halda því til haga að starfsfólk Fiskistofu hefur starfað af trúmennsku og dugnaði. Engu að síður veikti þessi flutningur Fiskistofu óheyrilega og veikti þar með eftirlitsaðilann og styrkti þar með þá sem vilja ekki af einhverjum ástæðum búa við gott eftirlit með sinni iðju.

En ég ætla ekki að lengja þetta öllu meira. Ég ítreka að ástæða er til þess að styrkja eftirlit með umgengni manna við auðlindir okkar vegna þess að þetta eru auðlindir þjóðarinnar næstu aldir.