149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt að ýmsar blikur eru á lofti í efnahagsmálum þjóðarinnar en ég undirstrika að staða ríkisfjármála er gríðarlega traust og við höfum getu til að takast á við áföll ef þau koma upp, sem vonandi gerist ekki á næstunni. Umræðan er hins vegar öll á annan veg um þessar mundir eins og oft gerist.

Varðandi möguleika í fiskeldi er það alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, framleiðslan þar er að taka mikinn kipp. Við vorum á síðasta ári að framleiða í eldi lax upp á 10.000–11.000 tonn og áætlanir fyrirtækjanna gera ráð fyrir því að á þessu ári láti nærri að framleiðslan verði rúm 30.000 tonn, sem er gríðarlega mikill vöxtur. Rétt er að þetta er verðmæt framleiðsla, þetta eru verðmætar afurðir, en við þurfum og verðum og eigum að kappkosta að byggja þessa atvinnugrein upp af mikilli ábyrgð og ekki ana að neinu.

Ég hef í því sambandi lagt áherslu að það sem við gerum byggjum við á bestu vísindalegu þekkingu hverju sinni og tökum hæg en örugg skref í þeim efnum. Ég tel sjálfur að möguleikar íslenskra eldisfyrirtækja í þeim efnum lúti að því að framleiða gæðavöru og því meiri sátt og því meira samkomulag sem er um þessa framleiðslu, þeim mun meiri möguleikar eru á því markaðssetja þetta á erlendum markaði í samkeppni við þá massaframleiðslu sem annars staðar gerist. (Forseti hringir.) Ég sé þetta gerast svona og að hin þjóðhagslegu áhrif verði þannig að vöxturinn muni skapa okkur tekjur til lengri tíma litið (Forseti hringir.) en þá á grunni þeirra forsendna sem ég hef verið að reyna að gera hér grein fyrir.