149. löggjafarþing — 87. fundur,  1. apr. 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[18:27]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi aðrar þær aðgerðir sem eru í aðgerðaáætluninni má segja að verið sé að vinna að þeim langflestum. Hvað varðar skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis eru það allt saman verkefni sem ég fól Skógrækt ríkisins og Landgræðslunni í fyrra. Ég á von á því að fá tillögur, er reyndar búinn að fá uppkast að tillögum frá þeim nú þegar sem verið er að vinna úr. Ég á von á því að við kynnum þennan hluta aðgerðaáætlunarinnar, þar sem við erum búin að ákveða hversu mikið fjármagnið á að vera, á vormánuðum. Hið sama á við um fyrstu verkefnin í orkuskiptum.

Varðandi orkuskiptin erum við komin mislangt eftir því um hvers konar aðgerðir við erum að tala þar. Við erum komin ágætlega á skrið í rafbílavæðingunni vegna þess að alllengi hafa verið til staðar ívilnanir og líka vegna þess að ráðist var í ákveðið átak í uppbyggingu innviða úti um allt land. Við erum í 2. sæti af þjóðum heims þegar kemur að nýskráningum rafbíla á eftir Noregi. Ég myndi segja að við stöndum okkur ágætlega þar en við þurfum að standa okkur betur, það er alveg rétt.

Að lokum vil ég segja, til að draga aðeins saman þessa umræðu sem er mjög góð og gagnleg, að það eru fjögur atriði sem við horfum á núna fyrsta kastið, það eru skógræktin, landgræðslan og votlendið í fyrsta lagi, orkuskiptin í öðru lagi, í þriðja lagi er síðan að koma fjármagni inn í nýsköpun og í fjórða lagi fræðsla.

Ég þakka hv. þingmönnum kærlega fyrir mjög góða umræðu að vanda um loftslagsmál á Alþingi.