149. löggjafarþing — 90. fundur,  8. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir mjög skýra, afdráttarlausa og um leið upplýsandi framsöguræðu með þessari þingsályktunartillögu. Ég held að hún hafi snert við okkur og við gerum okkur grein fyrir því að málið er viðkvæmt. Málið er viðkvæmt innan Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og hugsanlega einhverra fleiri flokka. Þetta eru spurningar sem velt hefur verið upp á síðustu vikum og misserum og mér fannst ráðherra svara vel í framsögu sinni. Það er mjög mikilvægt.

Um leið vil ég undirstrika að við í Viðreisn sögðum það strax að við myndum, ef það yrði til að hjálpa ríkisstjórninni, liðka til fyrir afgreiðslu málsins og við munum að sjálfsögðu standa við það ef það er eitthvert sáluhjálparatriði fyrir þingmenn innan stjórnarmeirihlutans.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, sem hefur mikla yfirsýn yfir nákvæmlega þessa þætti, hvað hann telji hafa verið mest til framfara fyrir íslenskt samfélag í gegnum fyrsta orkupakkann, annan orkupakkann og þriðja orkupakkann. Hvað telur hann hafa orðið til framfara (Forseti hringir.) og til bóta fyrir íslenskt samfélag, þar með talið neytendur og fyrirtæki?