149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það má segja að þeir lífskjarasamningar sem aðilar vinnumarkaðarins með aðkomu ríkisstjórnarinnar luku nú á dögunum marki ákveðin tímamót, í raun mikil tímamót. Allir sem að þessu koma eiga heiður skilið, þeir hafa lagt hönd á plóg. Í þessum samningum felast áfangasigrar fyrir ríkisstjórnina þar sem mörg af þeim markmiðum sem við höfum sett, og eru í stjórnarsáttmála okkar, hafa náð fram að ganga, til að mynda skattalækkanir.

Það sem mér finnst varða mestu í þessu öllu saman, sem ég held að geti markað ákveðin tímamót í viðræðum um kjarasamninga á Íslandi, er þegar ákveðið er að setja alla launþega á einhvers konar bónuskerfi, þ.e. að launþegar fái premíu, fái viðurkenningu og hlutdeild í þeim efnahagsbata sem kann að verða á næstu árum. Þar með ætti jafnvel að vera lokið því stagli sem er í kjarasamningum þegar verið er að rífast um hversu stóra sneið hver og einn eigi að fá af þjóðarkökunni. Aðilar vinnumarkaðarins, ásamt okkur hér á Alþingi, snúa bökum saman í því að ræða það hvernig við förum í að stækka kökuna þannig að allar sneiðar verði stærri fyrir alla samfélagshópa.

Virðulegi forseti. Þetta eru algjör tímamót, að mínu mati. Mér kom í huga í þessum kjaraviðræðum, þegar þessi ágreiningur var uppi um hversu stóra sneið hver og einn ætti að fá, af hverju menn væru ekki að ræða hvernig við ætluðum að stækka kökuna. Það er tímabært að gera það. Við höfum haft atvinnugrein, ferðaþjónustuna, sem dregið hefur hagvaxtarvagninn á undanförnum árum. Það eru ákveðin tímamót þar. Nú vantar okkur greinar og tækifæri sem skapa verðmæti, skapa verðmæti um allt land. Við höfum þar með stækkað þjóðarkökuna, (Forseti hringir.) aukið hagvöxtinn, það sem verður þá til skiptanna fyrir launþega í landinu jafnt sem þá sem að atvinnustarfseminni standa.