149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:16]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka utanríkisráðherra fyrir framsöguna í gær. Ég er ekki vanur að þakka þeim manni, hvað þá hrósa honum, en efnislega var ræðan góð. Hann sló að vísu Íslandsmet í hraðlestri með hana, þannig að ekki er víst að þeir eldri hafi náð öllu sem þar kom fram. En þessi tillaga hefur valdið talsverðri úlfúð í samfélaginu og mörgum miklum áhyggjum. Ég skil þær áhyggjur mjög vel. Sjálfur var ég mjög skeptískur og er alltaf skeptískur þegar kemur að auðlindum okkar, forræði okkar yfir þeim, og ég vil vera nokkuð viss um að forræðið sé okkar og að þetta snúist um hagsmuni okkar. Þar sem þessar áhyggjur voru talsvert miklar fóru bæði utanríkisráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í mjög mikla undirbúningsvinnu til að tryggja að enginn vafi léki á því að orkupakkinn yrði innleiddur með þeim fyrirvörum að við myndum sjálf taka allar ákvarðanir sem varða orkulindir okkar, eða orku, hvort við tengjumst innri markaðnum eða ekki. Ég verð að segja að eftir þá vinnu sem farið var í hef ég ekki áhyggjur af því að við séum að skaða hagsmuni okkar hvað þetta varðar á nokkurn hátt. Það er lykilatriði. Og það er rétt, sem utanríkisráðherra sagði, að þarna hefur heimavinnan verið unnin mjög vel, þó að vitað sé að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki verið mjög góður í heimavinnu á námsárunum sínum. Þarna stóð hann sig mjög vel í heimavinnunni og ég er sjálfur áhyggjulaus.

Það er rétt, sem hefur komið hér fram, að áhyggjur manna fólust einkum í tvennu. Annars vegar því að við værum með einhverjum hætti skuldbundin með innleiðingu orkupakkans til að tengjast hinum evrópska raforkumarkaði. Það er alveg augljóst að það er ekki að gerast. Það er hér lagalegur fyrirvari, að Ísland muni ekki tengjast innri raforkumarkaði ESB nema með samþykki Alþingis og þá að undangenginni sérstakri skoðun á því hvort slík ákvörðun samræmdist íslensku stjórnarskránni. Það reynir sem sagt ekki á það fyrr en við, Alþingi, höfum tekið þá ákvörðun, eða ætlum að taka þá ákvörðun. Þetta er lykilatriði. Þess vegna er ég áhyggjulaus og þess vegna ættu þeir sem hafa haft mestar áhyggjur að kynna sér þetta rækilega og þá er ég ekki í nokkrum vafa um að við þurfum ekki að taka þessa hörðu umræðu núna. Hún er ekki tímabær, hún gæti verið eðlileg á þeim tíma. Ef fram kæmi frumvarp um að við sjálf ætluðum að tengjast innri markaði Evrópu gegnum rafstreng, þá væri eðlilegt að taka þessa umræðu. Eins og málið liggur fyrir núna erum við að taka umræðu sem ekki er komið að. Við erum ekki komin þangað. Og það er ekki nokkur fræðimaður sem hefur haldið því fram, með þeim fyrirvara sem hér er, að um sé að ræða óeðlilegt framsal valds sem stjórnarskráin heimili ekki. Það er enginn sem heldur því fram. Og ég get alveg fullvissað þingheim um það að það myndi ekki hvarfla að mér að samþykkja þennan orkupakka ef ég teldi hann skaða íslenska hagsmuni. Bara aldrei. Og það er alveg fráleitt að ég fari að reyna að blekkja þjóðina með einhverjum hætti, það hvarflar ekki að mér að reyna að blekkja þjóðina. Ég ætla hins vegar að reyna að sannfæra þá sem eru enn efins, sem ég skil alveg, ég ætla ekki að gera lítið úr því. Ég ætla heldur ekki að gera lítið úr því ef einhverjir telja að hagsmunum okkar sé ekki betur borgið innan EES-samningsins, þá skulum við bara taka þá umræðu. En þessi innleiðing hér, með þeim fyrirvörum sem til staðar eru, sem eru algjörlega skýrir — það er algerlega ástæðulaust að fara að hafna honum, vegna þess að við vitum ekki einu sinni hvaða afleiðingar það getur haft fyrir hagsmuni okkar samfélags. Það getur verið mjög skaðlegt hagsmunum okkar samfélags ef við ákveðum að innleiða ekki þennan orkupakka.

Við erum í samstarfi. Við tókum ákvörðun um það í upphafi að vera í því samstarfi. Því fylgir ýmislegt. Og við getum ekki leyft okkur, nema við teldum hagsmuni okkar í hættu, að ákveða að hafna einhverju slíku, eins og sumir vilja hér með ófyrirséðum afleiðingum, vitandi það allan tímann frá upphafi að orka, ef við ætlum að tengjast, væri vara á markaði. Og þá getum við farið að ræða um það. Yrði það þá óeðlilegt framsal valds sem bryti í bága við stjórnarskrána? Ég hef að vísu ekki heldur áhyggjur af því þá. Við erum nýbúin að samþykkja persónuverndarlög þar sem vald er framselt til yfirþjóðlegrar stofnunar og enginn hafði áhyggjur af því, kannski vegna þess að við vorum ekki með auðlind undir, má vera. En þetta er allt hluti af tveggja stoða kerfinu, þannig að ég hef ekki áhyggjur af að þetta sé eitthvert framsal, og alls ekki núna, á valdi sem fari í bága við stjórnarskrána.

Ég bið þingmenn og almenning allan að setja sig vel inn í þetta mál, því að ég heyri umræðuna úti í samfélaginu. Ég heyri jafnvel reiðina. Og ég get alveg skilið það. En ég bið allan almenning og þingheim að fara nú yfir þá frábæru vinnu sem hefur verið unnin, til að tryggja með algerlega öruggum hætti að við séum ekki að stofna neinum hagsmunum í hættu. Við erum ekki að framselja neitt vald. Við erum ekki að skaða íslenska hagsmuni. Það er lykilatriði. Ég er algerlega sannfærður um að almenningur mun breyta um skoðun, því að ég veit að í skoðanakönnunum hefur almenningur verið mjög á móti þessu. Þegar menn kynna sér þetta í heild þá mun afstaðan breytast.