149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:04]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni að sjálfsögðu fyrir andsvarið, ég gleymdi að þakka fyrir það í fyrri ræðu. Hvaða óvissuferð er verið að fara í? Ég held, eins og orðalagið er sem notað hefur verið, að við séum bæði með belti, axlabönd og jafnvel smekkbuxur vegna þess að það er margítrekað búið að fara yfir málið.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var falið að fjalla um þetta ákvæði eins og öðrum nefndum þingsins. Leitað hefur verið til allra helstu sérfræðinga af ráðuneytisins hálfu núna, en ég æskti þess líka þegar þingnefndirnar voru að fara yfir málið að þær fengju lögfræðinga til sín til að ræða málin.

Virðulegur forseti. Ég hef því ekki sömu áhyggjur og hv. þingmaður. Ég mæli með því að málið fái umfjöllun í nefnd. Hvort það séu fleiri sem deila þeim áhyggjum sem augljóslega virðast vera uppi á borðum, sérstaklega hjá fulltrúum Miðflokksins á þingi, veit ég ekki. En ég verð að viðurkenna að eftir því sem maður grefur sig meira og meira niður í þetta mál, þeim mun sannfærðari verð ég um að ekkert er að óttast. Það er ekkert að óttast.