149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:18]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Hún spurði hvort við vissum hvert við værum að fara. Í 102. gr. í lögum um Evrópska efnahagssvæðið er sáttaleið, þ.e. ákvæði um hvernig fara á með ágreining fyrir sameiginlegu nefndinni. Þannig að það liggur alveg fyrir. Ef málinu er hafnað þá fer það þangað. Það er hægt að vísa því þangað. (Gripið fram í.) Þannig við vitum alveg hvar það er.

Fullt af spurningum koma upp í hugann þegar lesið er álit Stefáns Más Stefánssonar og sérstaklega síðara svar hans sem ég fann á vef Stjórnarráðsins, þar sem hann gefur sér forsendur, ef einhverjar forsendur standast. Ég spyr: Hvað ef þessar forsendur bresta? Ég spyr að því. Svörin liggja ekki fyrir. Ég vona að fjallað verði um það ítarlega í nefndunum.

Ég sakna þess og var að deila á að sú leið sem lögð er til, síðasta leiðin, hefur ekkert verið rannsökuð. Það hafa engir fræðimenn verið spurðir um þá leið. Það er örstutt fjallað um það í áliti þeirra hvaða leið þeir leggja til og hefur enginn annar tjáð sig um hana. Þá er eðlilegt að alþingismenn komi upp í pontu og spyrji: Af hverju er þessi leið ekki rannsökuð betur? Það hafið þið ekki gert. Ég er búinn að benda á spurningar sem koma upp í hugann við lestur þessarar leiðar. Ég er einfaldlega búinn að gera það. Ég vona að þeim spurningum verði svarað í þinglegri meðferð. En leiðin er auðvitað (Forseti hringir.) að fara aftur fyrir sameiginlegu nefndina með þetta mál.